136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[16:12]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að öllum ráðum verður beitt til þess að viðhafa eins mikla vernd umhverfis og náttúru og hægt er, það hefur verið leiðarljósið í allri þessari vinnu. Við höfum í þeim efnum farið mjög rækilega eftir því sem við höfum séð frændur okkar Norðmenn gera. Mér er alla vega sagt að engin þjóð í heiminum hafi jafnstífar umhverfisreglur varðandi olíuvinnslu og einmitt þeir. Þangað höfum við leitað ráða og reynslu.

Það má segja að það séu tvær þjóðir sem við höfum einkum skoðað hvernig haga sínum olíumálum. Það eru annars vegar Norðmenn en hins vegar Færeyingar, þangað höfum við leitað mikið. Það er skammt síðan sérfræðingar frá okkur voru í Færeyjum og hafa þeir reyndar verið þar mörgum sinnum. Við höfum líka fengið færeyska frændur hingað til þess að leiðbeina okkur. Þeir hafa leitað að olíu um átta ára skeið og hafa verið í þessum geira um töluverðan tíma. Það er kannski helst hjá þeim sem við höfum leitað ráða og reynslu að því er varðar meðferð skattlagningar og hvernig fara á með gjaldskyldu og annað sem tengist fjárhagslegum málefnum. Ástæðan er sú að þeir eru ekki langt frá okkur, þeir eru á sama hafsvæði. Við höfum, svo að ég sé algjörlega ærlegur, verið að reyna að haga málum þannig að við gætum, vegna þess hversu fjarri alfaraleið og langt norður frá og vegna þess hversu erfitt Drekasvæðið er, verið samkeppnisfær ef svo mætti að orði kveða.

Það eru ekkert mörg olíufyrirtæki sem finnst við fyrstu sýn það vera skynsamlegt að fara langt norður í ballarhaf til þess að eyða peningum í skoða svæði af þessu tagi. Staðreyndin er hins vegar sú að sá áhugi hefur farið vaxandi en það er nauðsynlegt ef okkur er alvara — og mér er alvara — með að fá fyrirtæki til þess að skoða svæðið, leita og rannsaka fyrsta kastið, verðum við að setja dæmið upp þannig að þau geti séð af því fjárhagslegan ávinning. Það er alveg ljóst að ef vel tekst til verður ávinningur okkar Íslendinga töluverður. Jafnvel þó að við gefum okkur að engin olía eða gas muni finnast er alveg ljóst að veltan í rannsóknunum sem mun eiga sér stað þarna er metin á tugi milljarða króna. Útgerðin á því verður að mestu leyti frá norðausturhorninu. Það mun því skipta mjög miklu máli fyrir vöxt og viðhald byggða sem þar eru. Það er þess vegna sem fólk í byggðum eins og á Langanesi og Vopnafirði hefur bundist samtökum um að reyna að undirbúa sig sem best fyrir það að geta tekið á móti slíkri útgerð og beint henni þangað.

Ef olía eða gas finnst er auðvitað spurning um hvenær það verður. Ég hef leyft mér að vera tiltölulega hófstilltur í því efni. Ég hef sagt það nokkuð gilt og svert að ég tel mjög miklar líkur á því að þarna sé olíu og gas að finna en ég hef jafnframt tekið mönnum vara við því að halda að það gangi einn, tveir og þrír á örfáum árum. Þar eru hins vegar norskir sérfræðingar mér ósammála.

Það er ekki langt síðan hér var sjónvarpsþáttur, Kompás, þar sem rætt var við þá sérfræðinga sem rannsakað hafa þetta svæði langmest, fyrst á vegum íslenska ríkisins fyrir nokkrum árum og síðan fyrir sérstakt fyrirtæki sem beinlínis hefur verið stofnað á grundvelli vitneskju sem leiðir af þeim rannsóknum og á að fara í vinnslu þegar leyfin verða boðin út. Það er því að minnsta kosti eitt fyrirtæki sem hefur lýst því sterklega yfir að það hyggist vinna þarna. Sérfræðingar og forustumenn þessa fyrirtækis eru nú ekkert að skafa utan af því þegar þeir tala um möguleikana. Þeir sögðu nýlega að þeir teldu að birgðirnar sem þarna væri að finna undir hafsbotninum gætu jafngilt nýjum Norðursjó en eins og menn vita var olíuvinnsla í Norðursjó undirstaðan að gríðarlegum uppgangi í Noregi, Skotlandi og reyndar niður eftir allri strönd Bretlands. Ég minnist þess sjálfur sem átti heima um nokkurra ára skeið úti við austurstrendur Mið-Englands að þar var mikil starfsemi sem tengdist viðgerð og viðhaldi og smíði alls konar tóla og tækja sem þurfti til þess að vinna þessa olíu í Norðursjónum.

Ég hef hins vegar aldrei sagt að þetta muni ganga fljótt fyrir sig. Ég hef sagt og ég held að það komi fram í frumvarpinu, ég hef a.m.k. skrifað greinar þar sem ég hef sagt: Menn skulu gera ráð fyrir því að það geti liðið 18–20 ár þangað til þetta gæti orðið að veruleika. Það er þess vegna sem leyfin sem menn tala um munu að öllum líkindum gilda í 18 ár með framlengingarfrestum sem í þeim er að finna. Norsku sérfræðingarnir tóku hins vegar svo stórt upp í sig fyrir nokkrum vikum á Íslandi að þeir sögðust gera ráð fyrir því að hugsanlega þyrftu ekki að líða nema fimm til sex ár áður en menn gætu séð olíu koma upp. Mér finnst það nú með miklum ólíkindum.

Af þeirri takmörkuðu þekkingu sem ég hef á þessu er það eigi að síður þannig að á sumum þeirra skika sem menn undirbúa að bjóða út fara saman vísbendingar sem fengnar eru með ólíkum og eðlisóskyldum rannsóknum sem benda til þess að undir sé olía. Bæði eru þar fjölgeislamælingar sem benda til þess að tiltekin jarðlög sé að finna sem jafnan eru tengd olíugæfum jarðlögum, sömuleiðis ákveðnar grópir eða „strúktúrar“ í jarðvegi hafsbotnsins sem bendir líka til þess að þar sé olíu að finna og í þriðja lagi eru merki — og stundum falla þau öll saman — um að gasuppstreymi sé á botninum.

Vísbendingarnar eru því giska sterkar og það er þess vegna sem sérfræðingarnir, sem hafa verið prófessorar í olíuvinnslu við norska háskóla, hafa stýrt olíuleitarfyrirtækjum og sumir reyndar gegnt yfirmannsstöðum hjá því norska fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi áðan, Statoil. Þessir menn sem hafa rannsakað þetta mest og hafa miklu meiri þekkingu, sennilega meiri þekkingu en allir Íslendingar samanlagt í þessum efnum, eru mjög bjartsýnir. Ég segi samt sem áður: Við skulum ekki gera ráð fyrir því að þetta verði að veruleika jafnfljótt og þessir ágætu sérfræðingar segja. Ef guð og lukkan eru með Íslendingum gætu kannski liðið tíu ár þangað til en í öllu falli er ljóst að þarna er um möguleika að ræða.

Það er hins vegar alveg gríðarlega kostnaðarsamt að ætla að reyna að raungera þessa möguleika og það er þess vegna sem við höfum kosið að fara þessa leið. Við höfum lagt fram upplýsingar sem við Íslendingar höfum unnið sjálfir eða erlendir undirverktakar á okkar vegum sem gefa grófa mynd af stöðu jarðlaga á þessu svæði. Næsta skref er hins vegar að gera einhvers konar tilraunaboranir, fyrst til þess að koma mælitækjum niður í botninn og ná þannig frekari þrívíddargreiningum á svæðinu. Það kostar mikla peninga og það kostar útgerð skipa, hugsanlega sums staðar einhvers konar borpalla eða -tækja. Við höfum ekki metið það svo að það sé á það hættandi fyrir okkur Íslendinga, svo litla þjóð sem við erum, ég tala nú ekki um í núverandi fjárhagslegri stöðu, að leggja í mikla áhættu. Það er þess vegna sem þessi leið er farin. Reynt er að leggja fram upplýsingar sem eru jákvæðar og ekkert er undan dregið þar. Sömuleiðis er reynt að meta kostnaðinn sem er af okkar hálfu við að úthluta svæðunum með þeim hætti að fyrirtækjum, sem leggja hvort eð er til hliðar gríðarlegar upphæðir til þess að leita að nýjum lindum, þyki eftirsóknarvert að koma þarna.

Við aðstæður eins og þarna eru er mjög ólíklegt að eitthvert eitt tiltekið fyrirtæki komi og vinni á eigin vegum. Á svæðum sem þessum er það yfirleitt þannig að tvö til fimm fyrirtæki slá sér saman. Oft er um að ræða stöndug, stór og sterk olíufélög sem mynda þá fjárhagslega hrygglengju slíks „leitarkompanís“ en þau láta kannski yngri og minni fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í leit sjá um hana sjálfa.

Hv. þingmaður nefndi réttilega að Norðmenn hafa farið ýmsar leiðir, ekki síst á fyrstu árum olíuævintýrisins sem hjá þeim hófst 1967, til þess að byggja upp þekkingu á olíuvinnslu í Noregi. Nú má segja að við norska háskóla sé kannski að finna öflugustu og mesta alhliða reynslu á sviði olíuvinnslu. Norðmenn vinna ekki aðeins á tiltölulega grunnu sævi í Norðursjó heldur vinna þeir líka ásamt Rússum á mjög erfiðum svæðum langt norður undir heimskautsbaug þannig að þeir hafa mjög alhliða reynslu af olíuvinnslu og olíuleit við mjög fjölbreyttar aðstæður. Þeir hafa orðið sér úti um mjög mikla reynslu og þekkingu. Ein leiðin sem þeir hafa farið er sú að þeir bjuggu til sitt eigið ríkisolíufélag sem er eitt af öflugustu olíufélögum í heiminum. Innan þess hefur orðið til alveg gríðarleg þekking og það félag hefur síðan stutt háskóla til þess að búa til enn meiri þekkingu.

Önnur ríki eins og Danmörk, eins og hv. þingmaður benti á, veita einfaldlega öll leyfin til einkaaðila. Það sem ég hef í hyggju er að fara bil beggja í þessu efni. Við ætlum að bjóða út sérleyfi og við eigum engra kosta völ af því að við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til annars en að leyfa einkafyrirtækjum að fara í málið. Við höfum sem sagt ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að setja upp ríkisolíufélag á borð við Statoil sem mundi beinlínis leggja í þá miklu fjárhagslegu áhættu að fara að finna og bora og vinna olíu. Það gæti leitt til gríðarlegs ávinnings fyrir Ísland en það gæti líka leitt til gríðarlegs kostnaðar án þess að ávinningurinn yrði nokkur, það er ekki hægt að horfa fram hjá því.

Hins vegar er hægt, þegar sérleyfin eru boðin út að gera ákveðnar kröfur sem gera umsækjendur líklegri en aðra til þess að fá svæði ef þeir fylgja þeim. Það er t.d. hægt að gera kröfur um að viðkomandi fyrirtæki kosti ákveðnar grunnrannsóknir sem tengjast þessu sem unnar eru við íslenskar menntastofnanir. Það er líka hægt að leggja þá kvöð á hendur þeim að þau taki þátt með öðrum hætti í að byggja upp menntun á þessu sviði á Íslandi. Það eru þau skilyrði sem við erum að móta og hv. þingmaður getur kallað eftir í fagnefndinni sem við alla vega vonumst til þess að verði með tíð og tíma til þess að innlend þekking byggist upp á þessum málum. Það er reyndar þannig að fyrirtækin sem hafa talað við okkur hafa verið að reifa málið á þessum nótum. Þau telja mjög æskilegt að innan lands verði til þekking á þessari grein og segja að það sé vel þekkt þar sem sterk fyrirtæki fara í vinnslu að þau beiti sér fyrir því að í viðkomandi landi sé byggð upp þekking með þessum hætti ef hana er ekki að finna þar. Það er auðvitað mjög æskileg leið.

Það hefði auðvitað verið dásamlegt ef Íslendingar hefðu búið yfir því bolmagni að geta sjálfir ráðist í olíuvinnslu með svipuðum hætti og Norðmenn gerðu. En við erum lítil þjóð og það kostar alveg gríðarlega peninga og þeir eru ekki aflögu, að minnsta kosti ekki núna. Ég mundi heldur ekki, jafnvel þó að fjárhagsleg staða væri allt önnur á Íslandi en hún er núna, leggja til að Íslendingar legðu allt það fé í áhættusama olíuleit og -vinnslu miðað við þá þekkingu sem nú er fyrir hendi. Þó að ég sé bjartsýnn og sérfræðingarnir séu bjartsýnir viðurkenna þeir að það getur tekið langan tíma að finna olíu og mun kosta mikla peninga.

Færeyingar hafa mjög órækar vísbendingar um að á þeirra landgrunni sé að finna kolvetni. Þeir hafa fundið svolitla olíu en hvergi í vinnanlegum mæli. Þeir eru búnir að vera að rannsaka það í átta ár. Það hefur að vísu skapað mikla veltu í samfélaginu vegna þess að komið hafa miklir peningar í gegnum rannsóknir og útgerðina frá Færeyjum. En eigi að síður er það þannig að ef færeyska ríkið hefði ætlað að standa undir því sjálft hefði það aldrei getað það og sama gildir um okkur þó að við séum töluvert stærri.

Þetta er því leiðin sem við förum. Við erum að reyna að fá olíufyrirtæki heimsins til þess að koma og leggja sjálf í kostnað við að rannsaka svæðið. Ef þau finna eitthvað enn meira en við höfum þegar fundið leiðir það til þess að svæðið verður enn meiri segull. Og þegar við bjóðum út næst munu fleiri koma. Við erum með öðrum orðum að laða fyrirtæki til landsins til þess að rannsaka það sem við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að gera sjálf, Íslendingar, með frekari borunum. Það sem við bjóðum þeim í staðinn er auðvitað sá ávinningur að ef þau finna verðmæti geta þau hagnast verulega. Sá skattapakki sem Íslendingar munu leggja sem grunn að þátttöku þeirra í þessu og verður væntanlega reifaður hér af hæstv. fjármálaráðherra í næstu viku gerir líka ráð fyrir því að Íslendingar fái mikið í sinn hlut og því meira eftir því sem meira kemur úr hverju svæði.

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og stöllu hennar hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að taka þátt í henni og leggja jákvætt til mála, að sjálfsögðu með gagnrýnum hætti. Það er ekkert sjálfsagt mál að Íslendingar ráðist í olíuvinnslu. Það er hins vegar algjörlega sjálfsagt að spurt sé fast út í umhverfis- og náttúruverndarþáttinn, það er hluti af skyldum Alþingis að hleypa ekki slíkum málum gagnrýnislaust í gegn.

Hv. þingmaður óskaði eftir því að ég beitti mér fyrir því að fleiri nefndir þingsins fjölluðu um þetta. Ég svara henni eins og ég hef svarað öllum þingmönnum sem segja þetta: Hér eru skil. Ég tala hér sem fulltrúi framkvæmdarvaldsins. Ég legg þetta mál fyrir og nú er það í höndum þingsins. Þingið ræður því algjörlega sjálft með hvaða hætti það fjallar um frumvarpið og ég lít ekki svo á að ég hafi vald til þess að meina þeim að gera eitt eða neitt. En ég held líka og hef alltaf sagt að ráðherrar eigi ekki að vera að skipta sér af því með hvaða hætti þingið vinnur mál.