136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[17:43]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin er rúin trausti. Ríkisstjórnin er einnig að því er virðist rúin trausti hluta stjórnarþingmanna sem tekið hafa undir háværar kröfur um kosningar og lýðræði í landinu. Nú er það þeirra að framfylgja stjórnarskrá lýðveldisins og hlýða eigin sannfæringu og samvisku en ekki flokksaga eða ægivaldi framkvæmdarvaldsins. Vantraust á Sjálfstæðisflokkinn er til staðar m.a. vegna þeirra miklu hagsmunatengsla örfárra aðila sem fengið hafa í langri stjórnartíð að búa um sig í fjármálakerfinu og íslensku þjóðlífi í skjóli auðs og valds, í skjóli sem nú hefur leitt hörmungar yfir íslensku þjóðina alla, sett skuldir og skuldbindingar sem hefðu fyrr eða síðar lent á skattgreiðendum. Það var eingöngu spurning um tíma. Það var fjármálakreppan sem skellti þessari staðreynd sem blautri tusku framan í okkur fyrr en ella.

Sjálfstæðisflokkurinn ber ekki einn ábyrgð. Meðreiðarsveinar hans bera einnig sök og geta ekki komið sér undan því að axla ábyrgð. Við lýsum vantrausti á Samfylkinguna sem í stuttri stjórnartíð hefur tekið undir blinda markaðsvæðingu bankakerfisins og skellt skollaeyrum við öllum aðvörunarbjöllum sem glumdu vegna stöðu og umfangs bankanna og skuldastöðu þjóðarbúsins.

Ekki veldur sá er varar, getum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sagt í dag þar sem við höfum allt frá árinu 2005 lagt fram tillögur um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum til að forða þeim efnahagsvanda sem þá þegar blasti við og er nú staðreynd. Því til viðbótar hefur svo lagst á hrun alls bankakerfisins. Við höfum lagt fram tillögur og framtíðarsýn sem byggir á félagslegum gildum og sjálfbærri þróun í stað grimmilegrar markaðshyggju sem við höfum búið við og núverandi stjórnvöld hafa fylgt eftir.

En nýfrjálshyggjan sem hefur farið eins og eldur í sinu um allan heim hefur náð sínum hæstu hæðum og er fallin með fjármálakreppu á heimsvísu. Það er staðreynd sem þjóðarleiðtogar stærstu ríkja heims hafa viðurkennt og segja að nú verði að endurskipuleggja markaðskerfi heimsins. Á slíkum stundum ríði á að stjórnvöld upplýsi þjóð sína um gang mála og gefi fólki færi á að velja stefnuna til framtíðar, endurnýja umboð sitt og traust. Okkar fámenna þjóð stendur nú frammi fyrir þeim mikla vanda að greiða upp milljarðaskuldbindingar banka og auðkýfinga útrásarinnar svokölluðu sem stóð þó ekki lengur en í fjögur til fimm ár. Ætlar þingheimur virkilega að láta slíkt viðgangast án þess að fólkið í landinu fái að segja sitt með lýðræðislegum hætti? Það skiptir höfuðmáli í þeim miklu þrengingum sem búið er að koma þjóðinni í að skapa traust bæði innan lands og ekki síður meðal þjóða heims. Það getur enginn tekið okkur trúanleg svo lengi sem sama fólkið, sömu öflin og keyrðu okkur í kaf stjórna förinni áfram. Lýðræðið verður að ráða för. Það skiptir öllu máli að efla lýðræðislega og opna umræðu, hlusta á gagnrýni og hleypa íbúum landsins til ákvarðanatöku um þau mál sem varða afkomu næstu kynslóða.

Ríkisstjórnin stefnir hins vegar í öfuga átt. Hún felur upplýsingar, hún sniðgengur þjóðþingið, hún hunsar lýðræðið sem er þó hennar æðsta skylda að efla.

Hæstv. forseti. Við verðum að efla jafnrétti í raun og tryggja að konur jafnt sem karlar sitji við stjórnvölinn á opinberum vettvangi, að hlustað verði á rök kvenna og framtíðarsýn, að staðinn verði vörður um innlenda framleiðslu, sjávarútveg, landbúnað, ferðaþjónustu, nýjar matvælagreinar og nýsköpun, þær greinar sem nú þurfa að fleyta okkur í gegnum erfiðleikana. Það verður að tryggja sjálfbæra þróun atvinnulífs og íbúaþróun um allt land. Það verður að standa vörð um auðlindir þjóðarinnar til lands og sjávar. Það verður að standa vörð um velferðarþjónustuna og það verður að standa vörð um sjálfstæði landsins.

Við lýsum því vantrausti á ríkisstjórn sem ekki hefur burði í sér til að gegna frumskyldum sínum eða efla og standa vörð um lýðræðið í landinu. Við köllum á þingheim að sýna að ríkisstjórnin starfar í umboði Alþingis en ekki öfugt. Við skorum á þingheim að sýna að þjóðþingið situr í umboði fólksins og það er vilji fólksins sem nú verður að taka völdin. Ríkisstjórnin verður að víkja. Kosningar verða að fara fram.