136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

íslenska ákvæðið og fundur um loftslagsmál í Kaupmannahöfn.

[14:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur var íslenska ákvæðið meðal annars sett til að tryggja að stóriðja á Íslandi valdi lágmarks mögulegri losun á heimsvísu. Ég held að hafa beri það í huga og jafnframt hversu mikilvægt ákvæðið er fyrir framtíðaruppbyggingu atvinnustarfsemi þar sem nýting náttúruauðlinda verður í forgrunni. Ef til þess kemur að við missum þá forgjöf sem við höfum til uppbyggingar hér mun það kosta þau fyrirtæki sem hafa verið að byggja upp starfsemi og sem koma til með að byggja upp starfsemi sem þarf kvóta af þessu tagi, alveg gríðarlega fjármuni. Þar er um að ræða margra milljarða ef ekki tugmilljarða kostnað á hverju einasta ári fyrir þau fyrirtæki. Það er alveg ljóst að ef við gætum ekki hagsmuna þeirra er fullkomlega sjálfhætt við þessi verkefni og óljóst er hvort við munum yfir höfuð geta fundið fyrirtæki sem vilja koma með starfsemi til Íslands og þurfa á losunarkvótum að halda.