136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

aðgerðir í atvinnumálum.

[14:29]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ástandið í Framsóknarflokknum er þannig að hv. þingmaður sem hefur setið tæpa viku á þingi er þegar komin í ágreining við formann Framsóknarflokksins. En þar að auki hefur ferðamálaráðherra beitt sér fyrir breytingum á umfangi ferðaþjónustunnar með þeim hætti að um mitt næsta ár verður sennilega búið að setja einhvers staðar á bilinu 700–1.100 millj. nýrra fjárveitinga í ferðaþjónustuna sem ég tel að hafi mjög mikla sóknarmöguleika. Þannig hefur þessi ríkisstjórn t.d. nú þegar ákveðið að fimmfalda það magn af peningum sem veitt er til þess að draga hingað erlenda ferðamenn. Við teljum að miklir sóknarmöguleikar séu í því. Iðnaðarráðherrann er að koma upp aðstöðu fyrir kvikmyndagerðarmenn og búa til stúdíó í einu af húsnæðum ríkisins. Iðnaðarráðherra hefur sömuleiðis komið upp frumkvöðlamiðstöð í næsta húsi við þingið fyrir atvinnulausa fjáraflastarfsmenn.

Varðandi „akróbatík“ á verðbréfamarkaðnum og í fjármálaheiminum var það svo að formann Framsóknarflokksins, að vísu ekki síðasta og ekki hinn þar síðasta heldur þann sem áður var, dreymdi líka drauma. Ekki um olíu en um hvað? Hann barði sér á brjóst og lagði fram skýrslu. Um hvað? Að búa til alþjóðlega fjármálamiðstöð (Forseti hringir.) á Íslandi. Þannig voru draumar flokksins þá og ætla ég ekki að ræða (Forseti hringir.) hverjir lögðu gjörva hönd þar að verki en við vitum öll hvað varð úr þeim draumum. (Forseti hringir.) Sumir draumar rætast ekki en olíudraumur minn og formanns Framsóknarflokksins munu rætast.