136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

sérstakur saksóknari og aðgengi að gögnum bankanna.

[14:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Hæstv. dómsmálaráðherra segir að mikilvægt sé að þessi saga og viðskiptafærslur sem farið hafa fram í útibúum sem rekin hafa verið á okkar ábyrgð og reikningurinn fyrir á endanum jafnvel sendur íslenskum skattgreiðendum, að sú viðskiptasaga sem þar er og allar færslur sem þar eru, að áður en þessi starfsemi verður seld þá sé það tryggt að hér í landinu sé aðgangur að því fyrir hinn sérstaka saksóknara, fyrir rannsóknarnefndina sem skoða á allar hliðar á málinu og líka fyrir skattayfirvöld og skattrannsóknarstjóra.

Því óhjákvæmilega er ástæða til þess að ætla að í þeim, vonandi fáu tilfellum sem brot hafa átt sér stað í gegnum dótturfélög erlendis, í gegnum Lúxemborg eða úti í skattaparadísum, (Forseti hringir.) þá sé það líka brot gagnvart íslenskum skattyfirvöldum og þar með þeim skattgreiðendum sem á endanum þurfa að axla reikninginn af (Forseti hringir.) starfsemi þeirra erlendis.