136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

málefni tveggja hælisleitenda.

[14:36]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vík máli mínu að hæstv. dómsmálaráðherra vegna málefna tveggja hælisleitenda sem nýverið var synjað um hæli á Íslandi. Þeir eru báðir frá Íran og þeir hófu mótmælasvelti þann 3. nóvember síðastliðinn. Eftir því sem ég best veit þá stendur mótmælasvelti þeirra enn.

Ég velti fyrir mér eftirfarandi atriðum í þessu sambandi, hæstv. forseti. Við þurfum að ræða um málefni þess hóps hælisleitenda sem ómögulegt er að vísa til baka til heimalandsins en þannig er ástatt um umrædda hælisleitendur. Þeim hefur ekki verið vísað af landi brott en hefur verið synjað um hæli og eru því komnir í ómögulega stöðu. Þeir mega ekki vinna eða sjá sér farborða og eru því lentir í einhvers konar svartholi hjá okkur á Íslandi. Þetta er mjög alvarlegt og þetta er ekki íslenskt vandamál heldur alþjóðlegt vandamál. Við þekkjum til í Noregi þar sem hópur hælisleitenda sem eins er komið fyrir stækkar ört.

Mig langar til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvað verið sé að gera í dómsmálaráðuneytinu til að taka á málum þessa hóps. Ég spyr líka hvort við höfum tapað einhverju af mannúð eða náungakærleika á síðustu vikum þegar við erum að ganga í gegnum miklar hörmungar á efnahagssviðinu. Ég velti því fyrir mér hvort við höfum hreinlega efni á því að synja fólki sem eins ástatt er um og þessa menn sem ekki eiga aftur afturkvæmt til heimalanda sinna um hæli, hafandi haft þá hér og hafandi séð þeim farborða í allt að fjögur ár. Ég vil fá að vita frá hæstv. dómsmálaráðherra hvað verið er að gera í þessum málum og hvort hann hafi kannað líðan (Forseti hringir.) umræddra tveggja manna.