136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[14:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa greinargerð fyrir málinu sem ég hygg að geti verið þarft og komið mörgum að liði nú við erfiðar aðstæður.

Ég vildi þó spyrja hæstv. ráðherra eins. Vegna þess að hér er í raun og veru um félagslega aðstoð að ræða, endurgreiðslu á sköttum sem menn hafa ekki rétt á að gildandi lögum né þegar þeir réðust í þessi kaup, væri þá ekki rétt að setja þak á þá fjárhæð sem til greina komi að endurgreiða? Þannig að hér skapist ekki aðstæður sem blöskra réttlætiskennd fólks, þ.e. að ef menn flytja mjög dýrar bifreiðar úr landi með sér þá fái þeir sendan með sér tékka upp á milljónir króna úr ríkissjóði fyrir það. Ég spyr því hvort ekki sé eðlilegt að endurgreiðslan takmarkist við eitthvert þak, hvort sem það eru 500 þús. kr. eða milljón eða ein og hálf, einfaldlega til þess að koma í veg fyrir að hér verði um einhverjar óhóflegar styrkveitingar til efnafólks að ræða.