136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[14:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eðlilegt að þess sé gætt að ekki sé misfarið með hlutina. Ég skal hins vegar ekki segja hvort það er rétta leiðin að setja þak á það sem væri heimilt að endurgreiða vegna einstaks ökutækis. Það gæti ef til vill dregið úr áhuganum á því að flytja dýrustu ökutækin úr landi og þar með dregið úr þeim hag sem væri af því að fá gjaldeyristekjur inn í landið vegna þess.

En ég tel sjálfsagt að nefndin skoði það ef hún telur að ákvæðin í frumvarpinu séu ekki nægjanleg til þess að girða fyrir hugsanlega misnotkun. En við fyrstu umhugsun hef ég áhyggjur af slíkri takmörkun, á þeim forsendum sem ég upplýsti áðan.