136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svolítið hissa á afstöðu hv. þingmanns. Hún talar um neyslufylliríið og vissulega hefur hún þó nokkuð til síns máls þegar hún talar um það. En hér er auðvitað verið að gera tilraun til að snúa ofan af því og reyna að ná til baka þeim gjaldeyri sem eytt hefur verið í þennan innflutning og næðist sennilega ekki annars. Tíu milljarðar, ég hef nú ekki sett þetta í nákvæmt samhengi en svona gróflega gæti ég trúað að þetta sé svona á bilinu 5–10% af útflutningstekjum sjávarútvegsins og það eru ekki litlar tölur í þessu samhengi sem þá er um að ræða.

Varðandi það að ríkissjóður hafi ekki kostað til neinum fjármunum í aðgerðir til að tryggja hag heimilanna þá gera bara þeir þættir sem snúa að fjármálaráðuneytinu og varða skuldajöfnunina og aðrir þættir sem snúa að fjármálaráðuneytinu fyrir utan þetta, eitthvað á annan milljarð í tekjum sem hafa komið inn vegna þeirra þátta. Ég held að hv. þingmaður eigi ekki að gera lítið úr þeim þáttum sem hún er að fjalla um og yfir höfuð eigi ekki að gera lítið úr þeim aðgerðum sem verið er að fara út í til þess að styðja við heimilin. Og eins það að greiðslujöfnunin kosti ekki neina fjármuni. Hún mun hafa veruleg áhrif á stöðu bankanna og bankarnir verða að leggja heilmikið á sig til að þetta geti gengið og það getur þurft að hlaupa undir bagga með þeim af hálfu Seðlabankans eða ríkissjóðs. Við vitum út af fyrir sig ekki nákvæmlega hver þörfin verður og þar af leiðandi ekki hvort það verður mikill kostnaður af því en það gæti líka orðið. Ég held þess vegna að hv. þingmaður eigi ekki að gera lítið úr þessum þáttum.