136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

niðurfelling laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs.

169. mál
[15:46]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek hér til máls eingöngu til þess að lýsa ánægju með að frumvarp þetta skuli vera komið fram. Það er augljóst og hefur verið um nokkurt skeið frá því að kísilverksmiðjan var aflögð að ganga þyrfti frá sjóðnum og finna honum hlutverk eða ráðstafa honum til framtíðar. Þar sem Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hafði bæði séð um vörslu sjóðsins og úthlutun úr honum er mjög eðlilegt að sjóðurinn renni til Atvinnuþróunarfélagsins í sama tilgangi, að styrkja atvinnu og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Undir það tekur héraðsnefnd Þingeyinga sem telur rétt að þessir fjármunir renni til Atvinnuþróunarfélagsins og að stjórn félagsins setji reglur um hvernig þeir nýtist best til atvinnuþróunar. Það skiptir miklu máli að haldið sé áfram á þessari braut, að styrkja og styðja við þær hugmyndir sem fram koma hjá heimamönnum um að efla atvinnu á svæðinu og tryggja fjölbreytta atvinnu.

Nægar eru hugmyndirnar og næg eru tækifærin. Það hefur sýnt sig á þeim skýrslum og því sem komið hefur frá þeim vinnuhópum sem settir hafa verið til þess að koma fram með hugmyndir um eflingu atvinnu á svæðinu að það vantar ekki bæði hugmyndir og kraft ef stuðningur og styrkur fæst til.

Því miður er það svo að þótt þetta séu ekki margar milljónir og vegi ekki þungt, hvorki hjá ríkissjóði né í samanburði við stórframkvæmdir eins og stóriðju, þá gera þær það hjá einstaklingum og litlum fyrirtækjum sem eru að reyna að koma nýrri starfsemi á laggirnar.

Oft þarf þessi stuðningur ekki að vara lengi en þarna eru oft og tíðum rannsóknir, markaðssetning og til er hlutafé sem stofnfé. Þar hefur sjóðurinn einmitt verið mikilvægur eins og fram kemur í greinargerðinni. Þar eru talin upp sex fyrirtæki sem sjóðurinn hefur keypt hlutabréf í. Það eru Hvalamiðstöðin ehf., Baðfélag Mývatnssveitar ehf., Höfðaver ehf., Tækifæri ehf., Eldá ehf. og Mývatnsstofa ehf.

Ferðaþjónusta hefur verið að eflast á svæðinu og þar liggja mörg tækifæri. Baðfélagið og Hvalamiðstöðin, sem ég þekki til, eru fyrirtæki þar sem uppi eru miklar hugmyndir um möguleika á stækkun og eflingu starfseminnar og verða eflaust, ásamt öðru, aðdráttarafl fyrir ferðamenn inn á svæðið. Ég tel alveg einsýnt að sjóðurinn geti haldið áfram að styrkja þessi félög og önnur sem efla atvinnu á svæðinu.