136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

niðurfelling laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs.

169. mál
[15:52]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mun ekki standa á okkur að ljúka upp höndum í fögnuði og hrósa hæstv. iðnaðarráðherra þegar hann leggur fram tillögur sem styðja fjölbreytt atvinnulíf og frumvarp sem stuðlar að því að styðja við sprotafyrirtæki og frumkvöðla og fólkið í landinu, í þessu tilfelli í Þingeyjarsýslu. Það sem við höfum helst séð hér upp á síðkastið frá hæstv. iðnaðarráðherra eru tillögur sem stuðlað hafa að aukinni stóriðju — rannsóknum, eflingu og undirbúning fyrir stóriðju á þessu svæði.

Það var nefnd að störfum fyrir ekki mörgum árum síðan. Ætli hún hafi ekki skilað af sér fyrir tveimur árum síðan hugmyndum um möguleika á atvinnuuppbyggingu á þessu svæði. Það var langur listi. Heimamenn leggjast yfir málið, skoða möguleika svæðisins og tækifæri íbúanna miðað við hugmyndir, menntun og náttúru. Þetta er því miður reynslan og ekki síður á Vestfjörðum, fer það því miður oft þannig að listarnir og hugmyndirnar eru allt of oft lagðar á hilluna þegar fram koma hugmyndir um að fara með stóriðju inn á svæðið.

Það virðist vera að sú hafi orðið raunin í Þingeyjarsýslunum. Margar hugmyndir, sérstaklega þær sem snúa að ferðaþjónustunni, hafa verið lagðar til hliðar. Ég get getið þess hér að (Forseti hringir.) ég baðaði mig í gamla baðhúsinu og eins hef ég notið (Forseti hringir.) þjónustu Baðfélags Mývatnssveitar og ég trúði því allan tímann að böðin yrðu mikið aðdráttarafl fyrir svæðið.