136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

tóbaksvarnir.

162. mál
[15:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir.

Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði til teknar breytingar á tóbaksvarnalögum sem nauðsynlegar eru taldar til að mæta skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum meðal annars um tilkynningarskyldu samkvæmt tilskipun 98/34/EB og til að samræma löggjöf okkar öðrum tilskipunum Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að kveða á um upptöku varúðarmerkinga í formi litmynda á tóbaksumbúðir í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Belgía hefur þegar tekið upp slíkar viðvörunarmerkingar og hafa fleiri lönd innan Evrópusambandsins hafið undirbúning að upptöku slíkra merkinga.

Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að felld verði brott ákvæði um að þeir sem framleiða, flytja inn eða selja tóbak megi ekki gefa sínar eigin upplýsingar á umbúðum um heilsufarsleg áhrif af neyslu hennar. Samkvæmt tilskipun 98/34/EB var ákvæðið tilkynningarskylt til Eftirlitsstofnunar EFTA en þeirri skyldu var ekki sinnt á sínum tíma.

Við nánari athugun þykir ákvæðið óþarft enda tilgangur þess sá sami og fram kemur í 2. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna. Ákvæðið svo breytt hefur því ekki efnislegar breytingar í för með sér.

Í frumvarpinu er lagt til að orðalagi 2. og 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna um auglýsingabann á tóbaki verði breytt þannig að heimilt verði að miðla upplýsingum um tóbaksvörur til þeirra sem selja tóbak í heildsölu eða smásölu enda sé þess gætt að upplýsingarnar séu ekki aðgengilegar neytendum eða öðrum. Sama á við um auglýsingar í ritum sem prentuð eru og gefin út utan EES-svæðisins, enda séu þau fyrst og fremst ætluð til dreifingar utan svæðisins og megintilgangur þeirra ekki að auglýsa tóbaksvörur.

Í frumvarpinu er bann við innflutningi, framleiðslu og sölu á leikföngum eða sælgæti sem er eftirlíking af sígarettum, vindlum eða reykjarpípum 48. gr. laganna og tekið upp sem nýr málsliður í 7. gr. laganna. Með þeirri breytingu er slík sala felld undir óbeinar tóbaksauglýsingar. Samkvæmt tilskipun 98/34/EB var ákvæðið tilkynningarskylt til Eftirlitsstofnunar EFTA. Með frumvarpinu og tilkynningu þess til eftirlitsstofnunarinnar hefur þeirri skyldu nú verið fullnægt.

Rétt er að geta að í lok tilkynningar félagsins barst ein athugasemd við frumvarpsdrögin. Athugasemdin kom frá Eftirlitsstofnun EFTA og varðaði 2. gr. frumvarpsins. Gerð var athugasemd við að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins væri heimilt að gefa út verðskrá fyrir tóbak en samkvæmt tilskipun 95/99/EB og dómi Evrópudómstólsins væri það óheimilt. Í samráði við fjármálaráðuneytið var því ákveðið að fella brott úr texta 2. gr. frumvarpsins orðin „verðskrá fyrir tóbak“.

Hæstv. forseti. Í ræðu minni hef ég farið í stórum dráttum yfir ástæður þess að ég legg fram þetta frumvarp en megintilgangur þess er að mæta skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.