136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

sjúkraskrár.

170. mál
[16:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna hverri einustu krónu sem er lögð í verkefnið en mikilvægt er og forsenda að áður en verulegar fjárhæðir eru settar í það liggi fyrir góðar áætlanir um hvernig eigi að vinna það. Ég veit af áhuga hv. þingmanns fyrir þessu og held að öll heilbrigðisnefndin og fleiri til hafi áhuga á málinu. Heilbrigðisstarfsmenn hafa einnig áhuga og ansi mikil umræða er um hvernig staðið hefur verið að málum. Misjafnar skoðanir eru á þeim kerfum sem hafa verið byggð upp og ég hvet hv. heilbrigðisnefnd til að fá þessa vel skipuðu nefnd eða fulltrúa hennar til að upplýsa að hverju hún hefur unnið og hvað hefur verið kannað. Því nefndin hefur ekki bara skoðað hvernig þessu er háttað innan lands heldur einnig annars staðar.

Þegar fjármunir verða lagðir í þetta, verða það háar upphæðir og mikilvægt að fjárveitingin nýtist sem allra best, auðvitað alltaf en kannski sérstaklega núna. Ákveðin sóknarfæri eru í þessari annars erfiðu stöðu sem við erum í vegna þess að hjá mörgum, sem var erfitt að fá til verka eins og þessara sökum mikillar eftirspurnar, er minna um verkefni nú en áður. Ég fagna áhuganum og því að málið er að komast á rekspöl. Enn vantar lagalegan grunn til að hægt sé að nýta þetta sem skyldi og á sama hátt höfum við ekki verið jafnskipulögð og við hefðum átt að vera þegar kemur að framkvæmdum. Ég tel að nú leggjum við grunninn að hvoru tveggja, annars vegar lagalega grunninum og hins vegar því að framkvæmdin verði sem allra best, en fagaðilar eru að fara yfir það mál í öðrum vinnuhópi.