136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er gaman að sjá þegar stjórnarliðarnir hotta hver á annan, hott hott á hesti. Hér kemur hv. þm. Helgi Hjörvar og hottar á hv. þm. Birgi Ármannsson og spyr hvað líði vinnslu frumvarps sem er í allsherjarnefnd. Það er svolítið gaman að sjá þegar stjórnarflokkarnir sjá ástæðu til að fara upp í hverju málinu á fætur öðru og hotta hver á annan. En ég get alla vega fullvissað hv. þm. Helga Hjörvar um að Framsóknarflokkurinn mun greiða fyrir þessu máli á allan hátt og ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að það er frekar mikil samstaða í nefndinni um þessar mundir um þetta mál.

Við gerum okkur grein fyrir því að það þarf að flýta sér að fara í rannsóknina. Við erum hugsanlega orðin of sein nú þegar, málið kemur auðvitað frekar seint fram og maður óttast að verið sé að eyða gögnum í kerfinu til að gera rannsókn erfiðari. Ég hef engar sannanir fyrir því en maður óttast það. Þriðjungur nefndarmanna er úr Samfylkingunni svo ég legg til að hv. þm. Helgi Hjörvar hotti líka á sína menn í nefndinni. Það hefur komið fram og ég vil rifja það upp að Davíð Oddsson seðlabankastjóri talaði um það í ræðu sinni sem fræg varð, 13 síðna ræðu, að þegar starfsmenn Kaupþings voru að fella niður ábyrgðir hjá sjálfum sér hafi borist ábendingar um að kalla til lögreglu strax en þær ábendingar hafi ekki fengið brautargengi. Svo spyr hann hvort menn séu að velta fyrir sér bankaleynd í þessu sambandi og að bankaleynd eigi ekki lengur við hvað þessi atriði varðar. Það er því mjög mikilvægt að við komum sem fyrst á embætti sérstaks saksóknara þannig að við getum farið að beina málum í lögreglufarveg. Hugsanlega erum við orðin of sein en Framsóknarflokkurinn mun liðka fyrir þessu máli eins og hægt er.