136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:00]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í maílok á þessu ári veitti Alþingi Íslendinga heimild sína til erlendrar lántöku upp á 500 milljarða kr. Aðdragandi þeirrar lántöku var allnokkur og á það raunar við um allt ferlið sem leiddi til setningar neyðarlaga 6. október sl. Óveðursskýin voru þegar tekin að hrannast upp á haustmánuðum í fyrra, lausafjárkreppan er, eins og allir vita, að stofni til alþjóðleg efnahagskreppa.

Upp úr síðustu áramótum tóku sjónir manna að beinast að Íslandi. Í janúar greindi ráðgjafi í gjaldeyrisviðskiptum hjá Merrill Lynch frá því að við versnandi aðstæður og vaxandi áhættufælni fjárfesta á alþjóðamörkuðum yrði íslenska krónan fyrsti gjaldmiðillinn sem fjárfestar losuðu sig við. Í janúar lagði Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, út frá niðurstöðu skýrslu matsfyrirtækisins Moody's á þann veg að efla þyrfti starfsumhverfi bankanna með því að styrkja gjaldeyrisforðann og bæta aðgengi að lausu fé eða að draga úr skilyrtum ábyrgðum ríkisins með því að bankarnir drægju saman seglin í útlöndum eða flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.

Hæstv. viðskiptaráðherra sagði í kjölfar þess ekki koma til greina að missa bankana úr landi, ríkisstjórnin ynni að því hörðum höndum að styrkja starfsumhverfi bankanna. Eftir 20% fall íslensku krónunnar á einum mánuði sagði hæstv. forsætisráðherra um miðjan mars að ástandið á gjaldeyrismarkaði væri ekki komið á það stig að það kallaði á aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra vildi jafnframt ekki breyta stefnunni í efnahagsmálum vegna tímabundins vanda og taldi ekki að langvarandi kreppa væri í uppsiglingu.

Á ársfundi Seðlabanka Íslands í lok mars taldi hæstv. forsætisráðherra eðlilegt að halda áfram á þeirri braut að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans. Jafnframt vildi ráðherrann kanna hvort Seðlabankinn gæti tekið upp samstarf við seðlabanka í þeim ríkjum þar sem íslensku bankarnir væru umsvifamiklir. Forsætisráðherra sagði á hinu háa Alþingi í lok mars að á fyrsta viðskiptadegi eftir ársfund Seðlabankans hefði krónan styrkst nokkuð myndarlega og að allt benti til þess að botninum í þessum efnum væri náð. Steininn tók þó úr þegar formaður fjárlaganefndar sagði þann 1. apríl að við horfðum fram á bjartari tíma.

Hæstv. forseti. Nú vitum við að formenn stjórnarflokkanna og bankastjórar Seðlabankans höfðu náið samráð. Formaður Samfylkingarinnar hefur nýverið upplýst um a.m.k. sex leynifundi á þessum tíma. Mörgum er í fersku minni mikill fundur í byrjun apríl sem átti samkvæmt fréttum að vera undanfari umfangsmikilla aðgerða í peningamálum. Fundurinn sá var svo mikilvægur að formennirnir tveir gátu ekki frestað honum, heldur brugðu á það ráð að fljúga að honum loknum með einkaflugi til Rúmeníu til að ná á NATO-fund. Lítið gerðist þó í framhaldinu.

Um þetta leyti mátu erlend blöð ástand á Íslandi hins vegar þá þegar það slæmt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kynni að verða að koma Íslandi til bjargar sem þrautalánaveitandi vegna lausafjárkreppunnar. Maður spyr sig hvaða kjörum hefði verið hægt að ná hjá sjóðnum á þeim tíma. Hæstv. utanríkisráðherra sló því um svipað leyti föstu í samtali við danska blaðið Berlingske tidende að allir bankar landsins gætu reiknað með stuðningi frá ríkisvaldinu ef þeir lentu í vandræðum. Vilji hennar stæði til þess að styðja bankana beint með framlögum úr ríkissjóði og einnig að auka gjaldeyrisvarasjóð landsins.

Sannarlega athyglisvert í ljósi þess sem síðar gerðist — eða ekki gerðist.

Hæstv. forseti. Ég minni á að á miðstjórnarfundi okkar framsóknarmanna 3. maí sl. flutti Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, þarft erindi þar sem hann sagði að þá steðjaði meiri vá að íslensku efnahagslífi en áður í lýðveldissögunni. Ástæðan væri sú að erlendir aðilar treystu ekki bönkunum til að borga skuldir sínar. Bakábyrgð Seðlabankans og ríkisins væri ekki til staðar þar sem bankarnir væru of stórir fyrir íslenska hagkerfið. Hann lagði því til að tekið yrði hátt erlent lán til að styrkja gjaldeyrisforðann en með því móti mundu erlendir aðilar hætta að vantreysta bönkunum.

Þess ber að geta að um þetta leyti var skuldatryggingarálag íslenska ríkisins um 50 punktar en í dag er líklegt að þeir séu hátt í þúsund. Er að undra, hæstv. forseti, að spurt sé: Hvernig var staðið að eflingu gjaldeyrisforðans? Auðvitað er maður að velta fyrir sér hvort það hafi verið vilji til að efla gjaldeyrisforðann og hvort það hafi verið samstaða á milli ríkisstjórnar og Seðlabanka um að það skyldi gert. Þar sem Alþingi veitti heimild fyrir 500 milljarða lántöku til þess að efla (Forseti hringir.) sjóðinn er ekki óeðlilegt að spurt sé hér á hv. Alþingi hvernig allt þetta fé hafi verið notað.