136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir hugmyndir hans um að fjölga störfum með því að auka álframleiðslu og því um líkt, það er nauðsynlegt að fjölga störfum þannig, en ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur frummælanda því að hún ræddi eingöngu um atvik í fortíðinni. Það er eins og að við gætum breytt fortíðinni. Það er eitthvað sem við getum ekki gert og ég er fyrir löngu búinn að átta mig á því. Jafnvel hugmyndaríkustu spámönnum datt ekki í hug að þrír stærstu bankarnir á Íslandi færu á hausinn. Ég hef hvergi nokkurs staðar séð þann spádóm, enginn spáði fyrir um það þannig að fortíðarhyggja hefur lítið upp á sig. Öll berum við náttúrlega meira og minna ábyrgð á því sem gerðist, öll, við skulum ekkert skorast undan því. Alþingi líka. (VS: Þetta mál er um fortíðina.)

Við þurfum að horfa til framtíðar. Við þurfum að horfa út frá þeirri stöðu sem við búum við í dag, við þurfum að koma gjaldeyrismarkaðnum í gang. Við þurfum að auka traust þeirra sem eiga krónubréf á Íslandi, jöklabréfin, um að þeir geti beðið hérna með þær krónur, og við þurfum að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að því að koma á gjaldeyrismarkaði þannig að fólk sem skuldar í erlendri mynt og útflytjendur hafi traust á því og flytji gjaldeyrinn sinn heim. Þetta er verkefnið sem við þurfum að vinna að, ekki að velta okkur upp úr því hvað gerðist í fortíðinni með hitt og þetta þó að það sé örugglega mjög mikilvægt að draga lærdóm af því og draga þá til sektar sem þar hafa brotið einhver lög.