136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að fortíðin komi ekki framtíðinni við. Svo er í reynd og það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin þarf að segja af sér.

Við ræðum hér heimildir til lánveitinga og lántöku frá því í vor upp á 500 milljarða kr. og hvernig til hafi tekist með ráðstöfun þeirra fjármuna. Ég minni á að þegar þetta kom til afgreiðslu á Alþingi var það með mjög ströngum fyrirvörum af hálfu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er að finna í framsöguræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, í ræðum sem hér voru fluttar og atkvæðaskýringum, og lutu m.a. að því að við vildum að gengið yrði í það verk að aðgreina viðskiptabanka frá fjárfestingarsjóðum. Við vöruðum við því að bankarnir væru að vaxa íslensku þjóðfélagi yfir höfuð og hvað það gæti þýtt. Við vitum svo hver niðurstaðan varð.

Það er hlálegt að heyra sérstaklega fulltrúa Samfylkingarinnar segja við umræðu um þessi mál að Samfylkingin hafi lagt sig í líma við að reisa múra almenningi til varnar. Það er alrangt. Þess sér hvergi stað í þingsögunni undanfarna mánuði og undanfarin missiri. Það sem ríkisstjórnin hins vegar gerði með oddvita stjórnarflokkanna í broddi fylkingar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, var að leggjast í útrásarvíking með útrásarvíkingunum til New York og til Evrópu til að hvetja fólk til að halda áfram að fjárfesta sem síðan hefur orðið til þess að skuldir landsmanna eru að verða óbærilegar. Þetta er skýringin á því að enginn vildi veita okkur lánafyrirgreiðslu. Ríkisstjórnin, (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, forsvarsmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, (Forseti hringir.) var rúin trausti. Það er mergurinn málsins. Við getum horft á eftirlitsstofnanirnar (Forseti hringir.) en þarna er hin raunverulega ástæða fyrir því að við höfum ekki fengið lánafyrirgreiðslu. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts. (Forseti hringir.) Það er alveg hárrétt, hv. þm. Ellert B. Schram. (Forseti hringir.) Þetta snýst um trú og trúverðugleika og ríkisstjórnin hefur hvorki trú né trúverðugleika.