136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu ítreka að á þeim mánuðum sem á undan eru gengnir hafa allir sem að þessum málum hafa komið að sjálfsögðu lagt sig alla fram við úrlausn mála eins og ætlast verður til. Fyrr á árinu hefði verið tekið erlent lán ef það hefði fengist á viðunandi kjörum. En því var ekki að heilsa. Þess vegna þýðir ekkert um það að tala í dag.

Við héldum í einlægni fyrr á árinu að botninum væri náð í þessum efnum og ég lét þau orð falla hér úr ræðustóli Alþingis í marslok eins og margir hafa rifjað upp. Við sáum ekki fyrir að lausafjárkreppan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum mundi breytast í efnahagslega heimskreppu eins og hún er núna að verða. Og ég segi fyrir mig að mikið er ég feginn því að við Íslendingar erum um þessar mundir að koma okkar málum í skjól í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og vinaþjóðir okkar áður en þessi fellibylur ríður af öllum þunga yfir nálæg lönd og önnur ríki sem þá munu eiga fullt í fangi með að hugsa um sín eigin mál og væntanlega ekki hafa mikið aflögu til að lána Íslendingum.

Við getum verið ánægð með það hversu langt mál eru komin núna. Við þurfum auðvitað að standa við það sem við höfum samið um, m.a. gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Auðvitað þurfum við fyrst af öllu að búa þannig um hnútana að við þurfum ekki að nota það lánsfé sem um er að tefla frá sjóðnum eða öðrum nema í mjög litlum mæli.

Hefðum við getað farið til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr á árinu? Ég efast um að grundvöllur hefði verið fyrir því þá. Hv. frummælandi spurði hvaða kjör við hefðum þá getað fengið á lánum þar. Ég get ekki fullyrt það en ég held að það sé svipað og við eigum í (Forseti hringir.) vændum núna.