136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna.

136. mál
[14:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og spurningin hljóðar svo:

Hvað líður stofnun landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi?

Hæstv. forseti. Ég legg þessa fyrirspurn fram til að vekja athygli á þessu mikilvæga máli sem hefur verið til umfjöllunar um nokkurt skeið. Hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða vegna þess að það er talið að einn þriðji hluti alls þurrlendis í heiminum sé í hættu vegna eyðimerkurmyndunar og uppblásturs og að umhverfisflóttamenn svokallaðir geti numið hundruðum milljóna í náinni framtíð ef ekki takist að stöðva jarðvegs- og gróðureyðingu.

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að stofna landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt hafa verið í gangi tilraunaverkefni sem áttu að ná til þriggja ára og við erum núna, ef ég veit rétt, á öðru ári þannig að það er mikilvægt að hv. Alþingi fjalli um það hér hvaða áform eru uppi hjá stjórnvöldum í sambandi við þetta mikilvæga mál. Hér er um mál að ræða sem er líka mikilvægt í sambandi við þróunarsamvinnu okkar. Nú er verið að draga úr henni vegna efnahagsástandsins en með því að Íslendingar leggi fram þekkingu á þessu sviði eins og þeir hafa gert bæði á vettvangi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna leggjum við mjög dýrmæta þekkingu af mörkum. Ástæða þess að ég spyr um þetta er sú að mér finnst þetta mjög mikilvægt mál.

Svo getum við líka farið út í að tala um mikilvægi fæðuöryggis. Fæðuöryggi er þáttur í því að halda friði í heiminum þannig að segja má að hvernig sem á þetta mál er litið er það mikilvægt. Ég er þess vegna mjög eftirvæntingarfull að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvar málið stendur og hvernig hún hyggst vinna að því á næstu missirum.