136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna.

136. mál
[14:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spyr hvað líði stofnun landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi.

Þann 3. október 2007 var skrifað undir samstarfssamning við Landbúnaðarháskóla Íslands um stofnun landgræðsluskóla en verkefnið hafði verið í undirbúningi um tíma. Helsta markmið verkefnisins er að þróa sex mánaða námskeið fyrir sérfræðinga á þessu sviði í landgræðslu og þar með stuðla að uppbyggingu og þekkingu í málaflokknum í þeirra heimalöndum.

Framkvæmd verkefnisins er í nánu samstarfi við Landgræðslu ríkisins. Starfsemi skólans hófst strax haustið 2007 með námskeiði fyrir sérfræðinga frá þróunarríkjum sem haldið var í tengslum við 100 ára afmæli landgræðslu á Íslandi. Fimm sérfræðingar sóttu námskeiðið sem stóð yfir í sjö vikur. Tveir þeirra komu frá Mongólíu, tveir frá Úganda og einn frá Egyptalandi. Síðasta vor sóttu svo sex sérfræðingar sex mánaða námskeið í landgræðslu og skyldum fögum. Þrír þeirra komu frá Namibíu, tveir frá Úganda og einn frá Mongólíu. Þetta verkefni er tilraunaverkefni og hefur allur undirbúningur að því verið í nánu samstarfi við Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Nú í haust var gerð óháð úttekt á verkefninu. Umsókn um aðild að tengslaneti Háskóla Sameinuðu þjóðanna var lögð fram til umfjöllunar hjá háskólaráði í þessum Háskóla Sameinuðu þjóðanna og sá fundur verður haldinn 1. desember næstkomandi, á mánudaginn, og þá sjáum við hvað út úr þessu kemur.