136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

jafnræði kynja í ríkisbönkum.

126. mál
[14:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég hef ekki séð þetta bréf sem hv. þingmaður vitnaði til. Það gæti út af fyrir sig verið gagnlegt að sjá það í tengslum við fyrirspurnina hafi bréfið verið komið áður en fyrirspurnin var flutt.

Þegar spurt er hver beri ábyrgð á því að jafnræðis sé gætt milli kynja við skipulagsbreytingar í nýju ríkisbönkunum þremur er því til að svara að um jafnræði milli kynja í ríkisbönkunum gilda lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Það er á ábyrgð bankaráða og bankastjóra bankanna þriggja að uppfylla ákvæði laganna. Það er rétt að við höfum það þá í huga að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi eiga fulltrúa í bankaráðunum.

„Hvert var kynjahlutfallið á milli stjórnenda bankanna þriggja fyrir yfirtöku ríkisins og hvert er það nú?“

Mér er ekki kunnugt um hvert kynjahlutfallið var fyrir yfirtöku ríkisins á bönkunum. Fjármálaeftirlitið yfirtók bankana á grundvelli laga um heimildir til fjárveitinga á ríkiseigum vegna sérstakra ástæðna á fjármálamarkaði og fleira og er Fjármálaeftirlitið enn ábyrgt fyrir málefnum gömlu bankanna en það heyrir ekki undir fjármálaráðuneytið.

Ekki er búið að ganga endanlega frá ráðningu allra stjórnenda bankanna og því liggja ekki fyrir upplýsingar um kynjahlutföll eftir að ríkið yfirtók bankana.

„Hvernig hefur ráðherra beitt sér til að tryggja að jafnræðis sé gætt milli kynja í nýju bönkunum hvað varðar stöðuveitingar og launakjör?“

Eins og fram kemur hafa verið sett sérstök lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Fram til þessa hef ég ekki haft neina sérstaka ástæðu til að beita mér gagnvart bankaráðum eða stjórnendum bankanna til þess að þeir framfylgi lögunum. Hins vegar skal á það bent að í 4. gr. laganna er kveðið á um hlutverk Jafnréttisstofu. Þar kemur m.a. fram að Jafnréttisstofa annist framkvæmd laganna, veiti ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna og sjái um fræðslu og upplýsingastarfsemi.