136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

jafnræði kynja í ríkisbönkum.

126. mál
[14:51]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hélt að enn fleiri hefðu beðið um orðið til að gera stutta athugasemd.

Það vekur áhuga og athygli okkar sem hér sitjum þegar farið er að fjalla um efnahagsmálin með kynjagleraugum og það gerir hv. frummælandi í þessari fyrirspurn sinni. Ég tel að fullur áhugi sé á því, ég sé það í augum þingmanna og þeirra sem kvatt hafa sér hljóðs, að taka þetta mál föstum tökum. Ég held að full efni séu til þess, hæstv. forseti, að við förum í sjálfstæða umræðu. Ég ætla að nota tækifærið úr þessum ræðustóli og biðja um utandagskrárumræðu um kynjamálin í þeirri stöðu sem við stöndum nú frammi fyrir hvað varðar bankana og hvað varðar efnahagsmálin. Ég held að fullt tilefni sé til þess og Alþingi verður að tala skýrt í þessum efnum núna.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði hér áðan hve erfitt það hefði reynst sér — hún var full af vilja — að leiðrétta hlut kvenna. Við skulum taka þessi mál föstum tökum núna og ekki hætta að ræða þau hér og nú. Höldum áfram að ræða þau þar til árangur næst.