136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

jafnræði kynja í ríkisbönkum.

126. mál
[14:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er alltaf erfitt þegar hv. þingmenn vilja að ráðherrar skipti sér af einstökum málum einstakra fyrirtækja og stofnana en vilja síðan ekki að þeir skipti sér af öðrum málum einstakra fyrirtækja og stofnana.

Mikið var fjallað um það, og miklar kröfur gerðar, að skipað yrði á faglegan hátt í bankaráð nýju ríkisbankanna, fagleg bankaráð ættu að hafa yfirstjórn í bönkunum en ekki ætti að vera með afskiptasemi úr Stjórnarráðinu, frá ráðherrunum, og það voru miklar kröfur gerðar um að allir flokkar ættu hlut að bankaráðum.

Ég hef reynt að fara eftir þessu. Ég hef reynt að vera ekki að skipta mér af starfsemi bankanna, hvorki á þann hátt sem hv. þingmaður ræðir hér né á nokkurn annan hátt. Ég tel að þau mál sem ráðherrar fara með hvað varðar bankana eigi að vera á almennum nótum — almenn fyrirmæli um það hvernig ganga eigi fram og stýra málum en ekki vera með inngrip í einstök mál. Þar af leiðandi eru það bankaráðin sem ráða bankastjórana og bankastjórarnir sem síðan ráða einstaka starfsmenn. Ég efast um að fleiri konur hafi verið bankastjórar á Íslandi en nú, reyndar við þessar sérstöku aðstæður. Kannski hefði verið ástæða til að fagna því en þá er farið að leita að einhverjum öðrum (Forseti hringir.) hlutföllum til að geta sýnt fram á það (Forseti hringir.) hversu neikvæð stjórnvöld séu í þessum efnum.