136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

143. mál
[15:11]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil aðstoða hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur við að rukka um aðgerðaáætlunina. Hæstv. ráðherra mun skila henni bráðlega, miðað við svörin sem hér komu.

Ég tel ástæðu til þess að inna hæstv. ráðherra sérstaklega um orðin sem hér féllu um að gera kaup á vændi refsiverð. Svíar tóku upp slíka löggjöf. Norðmenn gerðu það líka nýlega og af því tilefni var mikil hátíð fyrir utan norska sendiráðið. Bretar ætla að gera slíkt hið sama. Ég heyri að hæstv. ráðherra gælir við að við ættum líka að taka upp löggjöfina og ég tel að það sé til skoðunar.

Er rétt hjá mér að hæstv. ráðherra vilji tefja málið með því að fara í rannsóknir og úttektir? Eða er hæstv. ráðherra tilbúinn til að segja hreint út að við eigum að taka upp löggjöf eins og þá sem ríkir bæði í Noregi og Svíþjóð þannig (Forseti hringir.) að vændi verði líka gert refsivert hérlendis?