136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

skipan nýs sendiherra.

[10:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi fjölgun eða fækkun sendiherra. Eins og kom fram í kynningu á sparnaðartillögum utanríkisráðuneytisins munu tveir sendiherrar hætta störfum núna um áramótin og er gert ráð fyrir því að fjórir til viðbótar hætti á næsta ári. Þeim mun því fækka um sex um komandi áramót og á næsta ári. Það er hins vegar viðbúið að í stað þeirra sem hætta muni einhverjir færast upp því að segja má að í utanríkisþjónustunni hafi lengi verið ákveðinn hindrun varðandi að fólk gæti haft þann framgang í þjónustunni sem þar þyrfti að vera til staðar.

Varðandi Kristínu Árnadóttur var hún skipaður skrifstofustjóri á skrifstofu yfirstjórnar í ráðuneytinu núna í nóvember og sem skrifstofustjóri fékk hún titilinn „sendiherra“. Hún fer ekki í sendiherrastöðu heldur gegnir hún starfi skrifstofustjóra á yfirstjórn í ráðuneytinu. Ég taldi mjög mikilvægt að þessi skrifstofa yrði til og að betra utanumhald fengist um yfirstjórnina í ráðuneytinu af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að bæði ég og ráðuneytisstjórinn í ráðuneytinu höfum átt við veikindi að stríða og teljum að styrkja þurfi yfirstjórnina í ráðuneytinu við þær aðstæður.