136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

réttarstaða fólks við uppsagnir.

[10:40]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra hvernig ráðuneytið kemur að því að tryggja rétt starfsfólks sem nú er verið að segja upp, sem nú er verið að stilla upp við vegg og lækka starfshlutfall hjá, sem nú er verið að færa niður laun hjá. Þetta fólk á starfstengd réttindi. Í svona miklum rykmekki og alvarlegu stöðu sem er í íslensku samfélagi er alltaf hætta á því að einhverjir misbeiti þeirri stöðu sem þeir eru í gagnvart launafólki. Það er ekki góð staða að lækka fyrst laun og síðan starfshlutfall og segja því svo upp. Þetta þýðir að ráðningarsamningar eru breyttir þegar það er gert í stórum stíl. Í flestum tilvikum er örugglega farið fram af fullri réttsýni og réttlæti en engu að síður fáum við þingmenn fréttir af því að valdinu geti verið misbeitt. Ég finn ekki að því að menn leiti allra leiða til að halda rekstri gangandi í fyrirtækjum sínum og m.a. að lækka ofurlaun. En engu að síður er það svo að fyrirtæki virðast beita þessu jafnvel á lægst launaða fólkið. (Forseti hringir.) Þá ríður á að tryggja réttarstöðu þess. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvaða aðgerðir ráðuneytið hefur til að tryggja réttarstöðu fólks í þessum kringumstæðum.