136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

réttarstaða fólks við uppsagnir.

[10:46]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður verði nú að reyna að fara rétt með staðreyndir máls. Ég hef ekki vitað til þess að neins staðar sé boðaður 10% flatur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Það hefur ekki verið fallist á það í ríkisstjórn eða samþykkt þar. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ekki verður farið í neinn 10% flatan niðurskurð í velferðarkerfinu, (ÖJ: Það er byrjað.) það er bara staðreynd málsins. Við skulum sjá hvað setur þegar fjárlögin koma fram, það verður ekki farið í 10% flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. (Gripið fram í.)

Ég vil fá að svara hv. þingmanni áfram ef ég kemst að. Það verður auðvitað staðinn vörður um réttindi starfsfólks, að það verði ekki hlunnfarið á einn eða annan hátt, það verði ekki gengið á þau réttindi sem eru tryggð og eiga að vera til staðar. Ég fullvissa hv. þingmann um það og ef það eru einhver brögð að öðru verður auðvitað tekið á því. Það er grundvallaratriði í þessum samningum að ekki sé gengið á réttindi fólks, að það sé tryggt og staðinn vörður um það. Ég fullvissa hv. þingmann um að líka eru á leiðinni (Forseti hringir.) öflugar aðgerðir fyrir fyrirtækin í landinu og enn frekari aðgerðir til að tryggja betur hag heimilanna.