136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

10% niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[10:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að hv. þingmaður hefur ásamt nokkrum öðrum ákveðið að hamra á því bara nógu oft að það sé búið að taka ákvörðun um 10% flatan niðurskurð og vonast til þess að það verði einhvers konar sannleikur. Kannski er það vilji hv. þingmanna að það verði 10% flatur niðurskurður. Það liggur alveg fyrir, hefur margoft komið fram, að það verður ekki 10% flatur niðurskurður. Það liggur líka alveg fyrir að það sem um er að ræða er að vegna breyttra aðstæðna sem allir þingmenn þekkja var beðið um tillögur og það er stór munur á því að biðja um tillögur og að það séu einhver tilmæli. (Gripið fram í: Nú?) Við vinnum þannig í heilbrigðisráðuneytinu að við fáum hugmyndir frá forstöðumönnum okkar. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að fá forstöðumenn að vinnu og það er nokkuð sem við höfum gert.

Það sem hv. þingmaður gagnrýnir, og áttar sig kannski ekki alveg á, er það módel sem liggur til grundvallar þegar fjármunum er útdeilt til heilbrigðisstofnana. Hv. þingmaður sem situr hérna beint fyrir framan mig, Siv Friðleifsdóttir, þekkir það vel vegna þess að það er nákvæmlega módelið og sá sem hér stendur tók við af þeim hv. þingmanni. Það er bara svo einfalt. Ef hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir er mjög mikið á móti því módeli og telur að það sé ekki rétt gefið og telur sérstaklega að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi komið illa út úr því hvet ég hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur til að taka það upp í þingflokki framsóknarmanna. (Gripið fram í.) Það liggur alveg fyrir að það er það sem var gert.

Við höfum hins vegar farið yfir þessi mál og ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn úr öllum flokkum kynni sér það. Ég býð þeim það að við kynnum þeim hvaða forsendur liggja þar til grundvallar og hvaða hugmyndir menn hafa nefnt til að breyta því þannig að það sé í það minnsta ljóst hvað menn deila um. Ef við breytum því, t.d. á þann veg sem er sjálfsagt að skoða, (Forseti hringir.) að taka meira tillit til íbúafjölgunar, sem er alveg málefnalegt sjónarmið, þýðir það að við (Forseti hringir.) tökum þá á öðrum þáttum. Menn skulu vera meðvitaðir um það.