136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

endurhverf viðskipti.

[10:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem komu upp við fall bankanna, endurhverfu viðskiptin og tryggingar í endurhverfum viðskiptum voru ekki þær sömu og áður og því þurfti Seðlabankinn að grípa til ákveðinna ráðstafana til að tryggja stöðu sína. Eftir því sem ég best veit hafa þau fyrirtæki sem þar koma við sögu enn þá frest til að greiða úr málum sínum gagnvart Seðlabankanum og eftir því sem ég best veit er Seðlabankinn að nota þann tíma til að leita lausna sem hæfa báðum án þess að ég geti svarað fyrir Seðlabankann í þeim efnum.

Það er út af fyrir sig ekki útilokað að það gæti komið til þess að ríkisvaldið þyrfti að koma að þessu á einhvern hátt. Ég veit ekki hvernig það gæti orðið en væntanlega kæmu þá tillögur frá Seðlabankanum um það, en þær hafa ekki borist enn sem komið er og því ekki hægt að taka afstöðu til þeirra.

Það er óhætt að taka undir með hv. fyrirspyrjanda, þetta er vandamál og orðið til á sérstakan hátt, eins og hann lýsti, en það fríar auðvitað ekki þá aðila sem stóðu í þessum viðskiptum undan því að bera ábyrgð á viðskiptum sínum. Eins og í öllu því sem við gerum í þessum efnum reynum við að draga úr skaðanum og vinna þannig úr málum að sem mest standi eftir heillegt af bankakerfinu til þess að starfa til framtíðar. Það verður auðvitað að gerast á ákveðnum forsendum sem við öll þekkjum hér inni.