136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[11:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Íslendingar standa að mörgu leyti á tímamótum. Það eru að verða þáttaskil í okkar þjóðlífi og það er rétt sem hér hefur verið sagt að þessi þáttaskil kalla á sögulegt uppgjör. Það verður að sjálfsögðu ekki gert í einni skýrslu. En við fögnum því að sú vegferð skuli hafin.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt mjög ríka áherslu á að allar staðreyndir verði færðar fram í dagsljósið, allt það sem snertir hrunið á fjármálamarkaði, að öll álitamál sem uppi eru fái skoðun og umræðu og við höfum jafnframt lagt áherslu á að sú umræða sem nú fer í hönd verði víðfeðm enda snertir hún fjármála- og viðskiptalífið. Hún snertir stjórnmálin og tengslin þarna á milli. Hún tekur til siðferðis í stjórnmálum og viðskiptalífi.

Við erum í rauninni að fjalla um kviku íslenskra stjórnmála og eðli máls samkvæmt sýnist þar sitt hverjum. Hæstv. forseti Alþingis, 1. flutningsmaður málsins, sagði að það þyrfti að kanna hvort stjórnvöld hafi sofið á verðinum. Það mætti nálgast þetta frá annarri hlið einnig og staðhæfa, sem ég leyfi mér að gera, að í sumum tilvikum hafi stjórnvöld ekki sofið á verðinum heldur staðið vaktina fyrir fjármálaöflin á of ríkan og gjafmildan hátt, að þeim hafi verið gefinn um of laus taumurinn á undanförnum árum og þar sé kominn hluti af skýringu á þeim hörmungum sem við stöndum nú frammi fyrir.

Mikilvægast er í þeirri rannsókn sem nú fer í hönd að fá allar staðreyndir og öll álitamál upp á borðið. Hér er að finna frumvarp sem vísar til aðskiljanlegra þátta og við horfum að sjálfsögðu einnig til skýringartexta með einstökum greinum frumvarpsins og almennum athugasemdum sem þar koma fram. En það eru þrír þættir sem ég vil nefna sérstaklega að mikilvægt sé að haldið verði til haga og ég lít svo á, sé því ekki mótmælt hér við umræðuna, að það sé jafnframt skilningur flutningsmanna, að það þurfi að kanna aðdraganda bankahrunsins allar götur frá því að fjármálastofnanir landsins voru gerðar að hlutafélögum og síðan seldar, aðkomu stjórnmálanna, samspil viðskipta og stjórnmála, þ.e. að horft verði til þeirra ásakana sem uppi voru innan þings og utan og að þeim álitamálum sem ekki hefur verið svarað verði svarað í þessari skýrslu.

Í annan stað hlýtur rannsóknin að snúa að stjórnmálunum, að Alþingi, ekki bara stjórn heldur einnig stjórnarandstöðu. Nauðsynlegt er að spyrja um hvað var gert og hvað var ekki gert, hvaða lög og reglur voru settar, hvaða tillögur voru hunsaðar. Það þarf að horfa til framkvæmdarvaldsins og hvernig það fór með sitt vald og samspil allra þessara þátta og að sjálfsögðu til stjórnsýslunnar sjálfrar, til eftirlitsstofnana, til eftirlits og aðhalds sem eftirlitsstofnunum er veitt af hálfu framkvæmdarvaldsins og þingsins og skoða þarf þá umræðu sem fram fór almennt í þjóðfélaginu innan þings og utan. Ég legg áherslu á að við erum að skoða málið heildstætt, þær tillögur og ábendingar sem fram komu ekki aðeins frá þeim sem sátu á valdastólum heldur einnig hinum sem hafa það hlutverk í samfélaginu að veita aðhald.

Það er mjög mikilvægt að allar staðreyndir verði leiddar fram. Við stöndum frammi fyrir því núna gagnvart bönkunum og útibúum þeirra, til dæmis í Lúxemborg ef breyting verður þar á eignarhaldi að rannsókn á því sem kann að hafa gerst á vegum þessara fjármálastofnana og kemur okkur öllum við — nú deilir enginn lengur um það að það sem gerist í fjármálakerfinu kemur samfélaginu öllu við — að það kunni að lokast á bak við tjöld. Þess vegna ítreka ég að nefndin þurfi hið allra fyrsta að fá upplýsingar um allt sem lýtur að fjármagnsflutningum og að kannaðir verði fjármagnsflutningar, fjármálagerningar og ráðstafanir þeim tengdar sem ætla má að hafi verið gerðar í þeim tilgangi fyrst og fremst að komast hjá eða draga úr skattgreiðslum til íslenska ríkisins eða fela framtalsskyldar eignir og tekjur, þar á meðal að kanna hvort bankar og aðrar fjármálastofnanir eða dótturfélög þeirra erlendis hafi veitt fyrirtækjum eða einstaklingum þjónustu við það sem að framan greinir, svo sem stofnun, rekstur eða umsýslu félaga í skattaparadísum eða á öðrum svæðum þar sem skattundanskot eða skattsniðganga er auðvelduð meðal annars með takmörkun á upplýsingum til yfirvalda. Þessar síðustu setningar sem ég hafði uppi tel ég reyndar að ættu að vera í markmiðslýsingu frumvarpsins. Alla vega lít ég svo á, ef því er ekki mótmælt af hálfu flutningsmanna frumvarpsins, að þetta sé sá skilningur sem nefndin eigi að leggja í þessa rannsókn. Við höfum fylgst með því, þjóðin, á undanförnum árum hvernig ýmsir þeirra sem hafa náð tangarhaldi á fjármálastofnunum og atvinnulífi landsmanna hafa sjálfir verið komnir út og suður, búið á Gíbraltar, Kýpur eða annars staðar í heiminum, verið komnir með sína fjármuni í skjól. Sumt af þessu kann að vera löglegt og lenda ekki í rannsókn af þeim sökum en engu að síður ósiðlegt. Og þar sem þessi rannsókn á að taka á hinum pólitísku og siðrænu álitaefnum þá er mjög mikilvægt að fá þessar upplýsingar upp á borðið því ég endurtek að það sem þarna hefur verið að gerast kemur okkur öllum við. Við erum að fá reikninginn í bakið, íslenska þjóðin, ekki bara sú kynslóð sem núna er komin á legg heldur hugsanlega börn okkar og barnabörn og við eigum öll rétt á svörum. Þessi rannsókn hlýtur að eiga að leiða allar staðreyndir upp á borðið, öll álitamál af pólitískum toga og siðferðilegum upp á borðið.

Síðan kemur fram í þessu frumvarpi að umfjöllun skuli hafin um hinar pólitísku og siðrænu hliðar og reynt að draga rétta lærdóma af þeim. En ég endurtek það sem ég sagði í upphafi. Það verður ekki endilega gert í einni skýrslu heldur er það umræða sem mun taka langan tíma. En staðreyndirnar verða að koma fram í þessari skýrslu. Á það leggjum við áherslu í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og viljum að þau sjónarmið sem við höfum sett fram og ég hef verið að reifa fyrir okkar hönd fái umfjöllun í allsherjarnefnd þingsins. Það er mjög mikilvægt að allsherjarnefnd læsi sig ekki í textann nákvæmlega eins og hann liggur hér fyrir. Ég tel að það eigi að skerpa á markmiðslýsingu rannsóknarinnar en svo fremi sem þeim skilningi sem við leggjum í þetta frumvarp er ekki hafnað þá lít ég svo á að hann standi.