136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé fyrir mér og vildi gjarnan að 3. mgr. 1. gr. fari undir hin tölusettu verkefni stóru nefndarinnar, það er alveg ljóst. Hvort breyta þarf samsetningu stóru nefndarinnar að þessu leyti þá er ég ekki alveg sannfærður um það. Ég er náttúrlega ekki að boða hér neinar breytingar enda sit ég ekki í allsherjarnefnd, ég er einfaldlega að benda á hvað mér þætti æskilegt að nefndin liti til. Kannski þarf ekki að breyta samsetningu stóru nefndarinnar, kannski er óæskilegt að hún sé of stór og kannski er eðlilegt að hún sé þriggja manna og kannski má hún vera fimm manna, ég hef enga sérstaka skoðun á því. Það er kannski allt í lagi að hún sé þriggja manna, hún hefur hvort sem er samkvæmt 2. mgr. 2. gr. möguleika til að skipa sér starfshópa og hún getur þá alveg sett þetta verkefni í tiltekinn starfshóp. Mér finnst bara skipta miklu máli að þetta sé undir henni. Þarna eru menn í meiri hluta sem fullnægja dómaraskilyrðum við Hæstarétt Íslands. Þeir eru þjálfaðir í því að taka afstöðu til álitaefna um alls konar hluti, allra handa hluti, þannig að ég vantreysti þeim ekki til að ganga frá þessu máli í farveg þó svo að þeir séu ekki sérmenntaðir í stjórnmálafræði, félagsfræði, sagnfræði eða siðfræði. Ef þeir hafa vinnuhópa undir sinni yfirstjórn sem hafa fagþekkinguna á sínu færi teldi ég að þetta væri æskilegasta leiðin. Eins og ég sagði, kannski er eðlilegast að stóra nefndin verði áfram þriggja manna og það verði frekar starfshópur undir henni en sjálfstæð nefnd sem forsætisnefnd skipi.