136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:33]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki enn fundið rökin fyrir því hvernig evran og Evrópusambandið hefðu komið í veg fyrir kreppuna eða hvernig hún leysir þann bráðavanda sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum innleitt hið svokallaða fjórfrelsi sem er kjarnaatriðið í ESB-reglum, grunnatriði, og það hefur ekki reynst okkur vel. Við höfum innleitt eftirlitsreglurnar og þær hafa ekki reynst okkur vel. (Gripið fram í: Og eftirlitið.) — Og eftirlitið. Við erum í verstri stöðu allra Evrópuþjóðanna og það er fyrir annað en ESB-reglur og fjárfrelsi. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður talaði líka um félagslegar lausnir. Hér á þingi höfum við innleitt slíkar reglur í nokkuð stórum stíl. Ég vil skoða heiminn út frá víðari sjóndeildarhring en eingöngu því sem umhverfis er Evrópusambandið. Það er skoðun mín. Það er niðurstaða mín, að skoða málið fram og til baka en ekki kalla stöðugt: ESB, ESB, eins og gerst hefur á síðustu vikum, sem var óábyrgt, í stað þess að taka á málinu og vinna gegn þeim bráðavanda sem við stöndum frammi fyrir. Það var ástæða þess að ég stóð hér upp. En enn eru kölluð fram þessi óábyrgu orð, evra og Evrópusambandið, og enn vantar rökstuðning fyrir því hverju slíkt hefði breytt.