136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[13:30]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu afar athyglisvert mál sem full ástæða er til að fái vandaða umfjöllun í þinginu. Ég hygg að það sé einstakt að frumvarp af þessum toga sé lagt fram. Það er merkilegt af fleiri ástæðum, í fyrsta lagi vegna þess að það er forseti Alþingis sem hefur forgöngu um að flytja málið og semja það í samráði við formenn stjórnmálaflokkanna þannig að frumkvæðið kemur frá Alþingi sjálfu en ekki frá ríkisstjórninni. Ég tel að sé rétt að vekja athygli á því. Í öðru lagi eru það tímamót að hér skuli lagt til að setja á fót umfangsmikla rannsókn á miklum atburðum sem orðið hafa í þjóðfélaginu til þess að draga fram staðreyndir og upplýsingar þannig að allir sem málið varðar geti betur gert sér grein fyrir málsatvikum og myndað sér skoðun á þeim hvort sem það er almenningur, stjórnmálamenn eða aðrir.

Ég held að vert sé að halda því til haga að málið markar tímamót í þessum skilningi og forseti Alþingis á þakkir skildar fyrir að beita sér með þessum hætti því að þetta styrkir þingið fyrst og fremst. Það er til þess fallið að auka traust almennings á þinginu sjálfu þegar það hefur forgöngu um að setja löggjöf um svo mikilsverða atburði sem snerta svo marga í þjóðfélaginu sem raun ber vitni. Það er nauðsynlegt að víðtæk samstaða náist um málið til þess að það megi ná fram að ganga í góðum friði og ríkisstjórnin styður málið eins og sést á því hverjir eru flutningsmenn.

Hins vegar vil ég að segja að ég sakna þess að ríkisstjórnin hafi látið sig málið varða hér í þingsölum. Það hefur enginn ráðherra verið viðstaddur umræðuna og enginn tekið til máls. Ég vona að það sé ekki til marks um að það skorti eitthvað á á áhugann hjá þeim eða eftirfylgni með málinu. Ég vona bara að það sé til marks um að önnur störf eru brýn sem ekki verður undan vikist að leysa þrátt fyrir að þessi umræða fari fram.

Ég vil þó vekja athygli á því að helmingur flutningsmanna flutti hér á mánudaginn tillögu sem, ef samþykkt hefði verið, hefði leitt til þess að þetta mál hefði ekki komið fram. Þeir ætluðust til að fram færu alþingiskosningar án þeirra upplýsinga sem er verið að leggja hér til að aflað verði. Það segir í greinargerð með frumvarpinu á blaðsíðu 9, með leyfi forseta:

„Annars vegar þarf rannsóknin að vera nægilega heildstæð til að geta svarað þeim spurningum sem brenna á þjóðinni um ástæður þeirra áfalla sem hér hafa orðið og hverjir beri ábyrgð á þeim.“

Með öðrum orðum er þetta mál að mati flutningsmanna nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að afla þessara upplýsinga til þess að þjóðin geti lagt mat á málavöxtu.

Ég hlýt að spyrja: Af hverju vildi helmingur flutningsmanna síðastliðinn mánudag ekki afla þessara upplýsinga en láta fara fram þingkosningar? Af hverju vildu þeir þá að þjóðin greiddi atkvæði í alþingiskosningum þar sem þessi bankamál yrðu auðvitað og eðlilega í brennidepli kosningabaráttunnar án þess að fyrir lægju þær upplýsingar sem þessir sömu flutningsmenn telja algjörlega nauðsynlegt að öll þjóðin hafi aðgang að?

Ég hlýt að vekja athygli á því að þetta mál segir beinlínis að ekki er ráðlegt að hafa alþingiskosningar fyrr en fyrir liggja niðurstöður nefndarinnar sem ætlað er að skila 1. nóvember á næsta ári.

Ég tek undir það sjónarmið að áður en menn láta kjósa fljótt um mál í þingkosningum þar sem mikilsvert mál verður augljóslega í brennidepli og yfirskyggir önnur mál er nauðsynlegt að þeir sem kjósa hafi allar þær upplýsingar sem hægt er að ná í um atburðarásina og hlutdeild hvers og eins í henni. Síðan leggur hver og einn sitt mat á þær upplýsingar og gerir upp við sig hvernig hann vill kjósa. Það finnast mér eðlileg vinnubrögð og ég fagna því að nú eru formenn allra stjórnmálaflokka komnir á þá skoðun.

Ég vil gera athugasemdir við eitt eins og fleiri ræðumenn hér. Mér líst ekkert á að setja rannsóknarnefnd af stað í að leita sannleikans. Sannleikurinn fer ekki alltaf saman við staðreyndirnar vegna þess að hann er ákvörðun hvers og eins einstaklings. Það er enginn einn handhafi sannleikans til sem getur ákveðið hvað er satt og rétt í einu máli og gefið út sannleikann. En það hefur alltaf verið til nóg af fólki sem telur að það sé handhafi sannleikans og er oft svo sannfært um það að það sér ekki þær staðreyndir sem liggja á borðinu og talar því oft fyrir sannleika sem er í andstöðu við staðreyndir.

Svo að við förum nú langt aftur í tímann þannig að við séum ekki að blanda núlifandi fólki inn í umræðuna voru þeir Íslendingar sem brenndir voru á báli dæmdir af mönnum sem höfðu haft sannleikann og höfðu fundið sannleikann. Þeir töldu sig umkomna til þess að taka ákvarðanir á grundvelli þess um líf annars fólks. Það er það sem mér finnst vera athugavert við það markmið að leita sannleikans af því að sannleikurinn og staðreyndirnar fara oft ekki saman.

Það er allt annað að leita upplýsinga og staðreynda og annars slíks en þegar menn fara að tala um sannleikann er ástæða til þess að setja upp viðvörunarljós. Ég held að það væri þarft verk hjá þingnefndinni sem fær málið til meðferðar að leitast við að breyta orðalaginu þannig að það lýsi því sem ætlað er að gera en rannsóknarnefndin á ekki að vera nefnd sem sendir fólk á bálið. Það er sérstaklega tekið fram í greinargerð með henni að nefndin á ekki að dæma og hún á ekki að refsa en hún á að upplýsa.

Í 1. gr. kemur fram að í tengslum við athugun á þeim sex atriðum sem þar eru tilgreind eigi að fara fram rannsókn þar sem leggja á mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði á fjármálamarkaðnum. Það er í frumvarpstextanum sem mundi þá vera lagatexti ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt.

Ég er ekki ósammála þessu. Ég held að það eigi að standa þarna þótt siðferði sé auðvitað dálítið teygjanlegt mál. En það er þó sæmilega skýrt og yfirleitt eru meginatriði í skilgreiningunni sameiginleg hjá flestum.

Það er full ástæða til þess að skoða það mál eins og ég held að hafi verið nefnt hér að það er skortur á siðferði í fjármálaheiminum þegar er farið að veita stórfelld lán til einstaklinga með þeim hætti að þeir geta aðeins hagnast á viðskiptunum, eins og dæmi eru um, með hlutabréfakaup í bönkunum. Það hefur verið notað að því er virðist sem svikamylla til að halda uppi gengi á verði hlutabréfanna í bönkunum. Það finnst mér vera dæmi um skort á góðu viðskiptasiðferði, að grípa til þessara ráða til þess í raun að falsa það sem rétt er.

Mér finnst líka of langt gengið þegar starfsmenn bankanna fá að skammta sér þá skilmála að geta tekið milljarða króna að láni sem þeir eru að sjálfsögðu engir borgunarmenn fyrir og hirða ágóðann ef hagnaður verður af viðskiptunum en ef tap verður af viðskiptunum lendir það á almennum viðskiptavinum bankans.

Mér finnst það líka skortur á siðferði á fjármálamarkaði þegar eigendur bankanna hafa leikið þann leik sem sannað er að þeir hafi gert að flytja hundruð milljarða úr landi til að komast hjá því að borga skatta hér á landi og geyma peningana í skattaparadísum í Evrópu. Þeir hafa meira að segja getað komið sér undan því að borga skatta af arðgreiðslum með millifærslum af þessum toga. Mér finnst það líka vera skortur á dugnaði hjá ríkisstjórninni að hafa ekki sett undir þennan leka með því að beita sér fyrir lagasetningu. Mér finnast báðir aðilar bera ábyrgð á því að það hafi verið látið viðgangast árum saman.

Ég held að ég hafi séð upplýsingar um að þarna gætu hafa verið fluttir um 400 milljarðar frá landinu til skattaparadísa. Það eru miklir peningar sem annars hefðu verið greiddir í skatta af þessum eignum sem eigendurnir komust hjá.

Mér finnst líka skortur á siðferði víðar en í fjármálamarkaðnum sem ýtir undir þá þróun mála þar. Þar á ég við stjórnmálamennina. Þegar stjórnmálamönnum finnst eðlilegt að þeir séu að hlutast til um málefni sem varða þá persónulega mjög mikið finnst mér það skortur á réttu pólitísku siðferði. Það eru tvö dæmi um slíkt á síðustu árum, annars vegar ráðherra sem var eigandi í fyrirtæki sem tengdist kaupum á ríkisbanka og hins vegar ráðherra sem var eigandi í einum af viðskiptabönkunum nýlega.

Mér finnst ekki hægt að ráðherrar telji sig geta hlutast til um mál og notað pólitísk ítök sín á ríkisstjórnarstiginu til þess að leiða til lykta mál þar sem þeir eiga mjög mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Þeir eru auðvitað vanhæfir í þessum málum alveg eins og þeir eru óumdeilanlega vanhæfir ef sömu mál eru inni á borðum þeirra sem fagráðherra því að þar eiga þá stjórnsýslulögin við.

Mér finnst að stjórnmálaflokkar sem líða ráðherrum sínum slíkt verði að taka til hjá sér, þeir verði að svara almenningi í því. Finnst þeim það eðlilegt siðferði að ráðherrar geti valsað svona um og beitt pólitísku afli sínu í eigin þágu án þess að blikna eða blána? Það er eitt af því sem kemur til umræðu í tengslum við þetta mál.

Það er skortur á pólitísku siðferði sem liðist hefur hjá síðustu ríkisstjórn að einkavæðing ríkisfyrirtækja fór ekki fram eftir lögbundnu ferli. Einkavæðingarnefndin starfaði ekki samkvæmt lögum. Auðvitað eiga slíkir hlutir sem einkavæðing að fara eftir lögbundnu ferli þar sem leikreglurnar eru skýrar og ábyrgð þeirra sem taka ákvarðanir er skýr. Það þarf auðvitað að laga. Auðvitað verður einkavæðing síðar og þeir bankar sem nú eru ríkisbankar verða einkavæddir einhvern tímann í náinni framtíð. Ætla menn að gera það eftir sömu ómótuðu reglunum og gilda í dag þar sem menn geta haft formið eins og þeim sýnist og sem hentar hagsmunum þeirra ef því er að skipta? Alls ekki. Ég ætla að leyfa mér að vona að ekki sé lengur stuðningur við það hér á Alþingi eða í ríkisstjórn að láta hlutina ganga svona fram eins og menn hafa umborið á undanförnum árum og áratugum.

Virðulegi forseti. Að mörgu er að hyggja í tengslum við þetta mál enda er það mjög víðtækt. En ég ítreka stuðning minn við það og vek athygli á því hversu mikil tímamót í raun eru hér á þingi með flutningi þessa máls því að það er í fyrsta skipti í mjög langan tíma þar sem frumkvæðið kemur héðan frá Alþingi í meiri háttar máli.