136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[13:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fagna því að hér er komið fram frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna árið 2008 og á þeim tengdu atburðum sem leiddu til þessa falls. Ég segi eins og Skagamaðurinn: Það er betra seint en síðar meir, og ég vona að þau lög sem væntanlega verða samþykkt leiði til þess að við getum endurheimt og byggt upp að nýju traust á stjórnvöldum varðandi alla rannsókn og meðferð mála í sambandi við þetta mikla áfall.

Það er sögulegur áfangi þegar þingið tekur ákvörðun um að skipa jafnumfangsmikla rannsóknarnefnd og hér um ræðir. Það hefur komið fram í máli þeirra sem þegar hafa talað og kemur fram í frumvarpinu sjálfu að ætlunin er að skoða allt til hlítar og draga fram öll þau atriði sem mega vera til skýringar á því hvað gerðist, byggja fyrir okkur hugmyndir eða tillögur að nýjum vörnum varðandi það að þetta geti ekki gerst aftur og ég held að þetta sé allt saman afar mikilvægt. Þetta er líka áfangi í því að þarna er í fyrsta skipti verið að nota rannsóknarnefnd til þess að leysa stærri mál og vonandi gerum við það oftar þegar svona mikil og stór mál koma inn, að þingið taki frumkvæði að því að skipaðar séu óháðar rannsóknarnefndir undir leiðsögn í þessu tilfelli forseta þingsins, sem ég vil nú þakka fyrir að hafa stýrt þessari vinnu vel í gott frumvarp, að það verði sem sagt skipaðar nefndir sem taka á stórum málum. Það hefur oft verið óskað eftir þessu áður en sjaldan verið gert, og eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi þá markar það tímamót að frumkvæði skuli vera tekið í þessa átt.

Það þarf að vinna hratt í þessu máli því á hverjum degi koma fram nýjar upplýsingar um ýmsa hluti sem hafa verið að gerast í fjármálakerfinu skömmu fyrir hrunið. Við sjáum flutning fjármagns, við sjáum gagnkvæma kaupsamninga og björgun á fjármagnseigendum þar sem menn hafa verið að færa til á milli félaga og allt það sem hefur komið fram í fjölmiðlum. Þess vegna er mjög mikilvægt að samhliða þessari rannsókn taki fljótt til starfa sá saksóknari sem á að skipa til þess að fara með mál sem hugsanlega eru sakamál, svo hann komist fljótt í að rannsaka hugsanleg lagabrot í því samhengi.

Ég tók strax eftir því þegar ég las frumvarpið að það er ekki talið upp formlega til hverra rannsóknin eigi að ná. Ég sagði svona í fyrsta bragði: Bíddu, það þarf nú að taka fram að þetta eigi að ná til þingsins og ríkisstjórnarinnar jafnt og annarra. En eftir að hafa skoðað málið betur sé ég að það er auðvitað mjög skynsamlegt að telja þetta ekki upp vegna þess að auðvitað á ekki að undanskilja neinn þegar unnið er að svona rannsókn, það koma örugglega upp álitamál um hvar eigi að bera niður, það á allt að vera undir. Það eru eigendur bankanna, þeir sem tóku þar mikilvægar ákvarðanir, það eru stjórnmálamenn, alþingismenn, ríkisstjórnin, ráðuneytin, það eru embættismenn, Fjármálaeftirlitið og ekki hvað síst Seðlabankinn. Allt þetta þarf að skoða í þessari úttekt og ég veit að það er hugmyndin að það verði gert og enginn getur skorast undan að standa fyrir máli sínu í þessu samhengi.

Í umræðu um þetta mál hefur komið fram að það sé ekki nóg að skoða lagalegu hliðina, það getur orðið svo þröngur vinkill ef menn ætla aðeins að líta á hvort menn hafi vikið frá lögum og reglum eða skoði eingöngu með hvaða hætti eigi að breyta lögum og reglum til þess að stýra okkur inn á rétta leið. Ég held að það sé útilokað að komast hjá því að ræða siðferðilegu viðhorfin, eins og hér hefur komið fram hjá mörgum ræðumönnum, að skoða hvaða gildi hafa verið að baki ýmsum ákvörðunum, almenningsálitið og við getum sagt kannski alheimshreyfing sem við segjum gjarnan að beri heiti frjálshyggjunnar, sem hafi ráðið öllu í viðskiptalífi okkar og nánast ekki verið heimilt að ræða um galla hennar. Ég held að þetta viðhorf frjálshyggju hljóti að víkja og við þurfum að fá önnur gildi.

Í rauninni höfum við búið við það, og það er atriði sem ég ræddi oft sem skólastjóri að væri gjörsamlega óviðunandi viðhorf, þ.e. að allt sé leyft sem ekki er bannað, að menn reyni að ganga eins langt og þeir komast bara ef þeir sleppa við að vera dæmdir. Þegar maður er að ala upp börn líðst þetta engan veginn. Ef ég ætla að stýra mínum skóla get ég ekki talið upp allt sem er bannað, það yrðu fleiri hundruð blaðsíður, en það vita allir eftir hvaða reglum er farið og hvaða viðmið tíðkast. Maður lemur ekki þann sem maður gengur fram hjá á ganginum, það er ekki viðurkennt viðhorf, maður hrækir ekki framan í næsta mann eða á gólfið o.s.frv., ekki þarf að taka það fram. En því miður er það þannig að menn hafa farið fram í viðskiptalífinu og víðar undir því að allt sé leyft sem ekki er bannað og jafnvel ganga þar svo nærri að þeir fara yfir mörkin og yfir í það sem ætti að vera bannað eða a.m.k. það sem enginn hefur treyst sér til að túlka að væri ekki bannað, þeir hafa leyft sér að ganga svo langt. Ég held að slík viðhorf þurfi að breytast.

Það eru líka ákveðin gildi sem hafa ýtt út umræðu þeirra manna sem hafa viljað láta ráða önnur sjónarmið en peningasjónarmið. Menn hafa haldið því fram hér í ræðustóli í annarri umræðu á undanförnum árum og víðar í samfélaginu að það sem ráði gjörðum manna séu peningalegir hagsmunir. Ég hef haldið því fram í mörg ár að þetta sé kjaftæði. Þeir sem fara eftir slíkum lögmálum þurfa að víkja, það eru önnur sjónarmið sem gilda en bara það að peningarnir eigi að fá að ráða. Þar með erum við komin að því sem er auðvitað grundvallarhugsunin líka, að markaðurinn einn getur ekki leyst öll mál, hann getur verið góður þjónn en harður húsbóndi. Við þurfum að vita hvað við viljum, það eru sem sagt gildi sem þurfa á vera á bak við þetta. Ég held að um það séu allir sammála að þessi gildi hafa vikið mjög á undanförnum missirum og árum og meðal annars þess vegna fór sem fór.

Eitt af því sem þarf að breytast í samfélaginu er sú afstaða að hingað til hefur það verið þannig að réttur þeirra sem eiga skuldir, þ.e. þeir sem eiga fjármagnið, hann er langtum meiri en þeirra sem skulda. Ég hef vakið athygli á því í minni hópum og þar sem ég hef haft tækifæri til og lítillega hér úr ræðustóli að það eru til leiðbeinandi reglur eða tilmæli, m.a. frá ráðherranefnd Evrópuráðsins, þar sem fjallað er um skuldsetningu einstaklinga og þar sem fjallað er um ofskuldsetningu, „overdebtness“, eins og það er kallað, þar sem menn voru einmitt að ræða um: Með hvaða hætti tryggjum við réttindi — og þá er ég að tala um mannréttindi og reisn — þeirra sem skulda?

Þegar samið er um lán er ábyrgðin gagnkvæm. Bankinn lánar, sá sem tekur lánið skuldbindur sig og það á aldrei að vera á annan veginn. Ef menn lána of mikið og gefa sér rangar forsendur bera báðir ábyrgð á því að leiðrétta þann misskilning. Ég held að það sé mjög mikilvægt að draga þetta atriði fram í umræðunni og í framhaldinu að skoða einmitt þessi gagnkvæmu réttindi. Við munum að einhverju leyti taka á þessu í gegnum greiðsluaðlögunarhugmyndina sem við erum að vona að komi inn í þingið strax upp úr mánaðamótunum og verði afgreidd fyrir jól. Þar er einmitt reiknað með því að þeir sem skulda geti komið að borðinu og krafist þess að lán séu færð niður með einhverjum hætti eða jafnvel afskrifuð. Það er mjög mikilvægt þar sem bankar hafa jafnvel verið að lána fyrir húsnæði allt upp í 110–120% miðað við andvirði húsnæðisins og þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig staðan er hjá viðkomandi lántakendum nú þegar húsnæðisverðið fellur til viðbótar við allt annað, verðbólguna og þess háttar. Þarna er eiginlega ekki hægt að bjarga málum nema með hreinni niðurfærslu eða með því að létta af fólki til þess að það lendi ekki í þrotum og skuldaviðjum til langs tíma.

Hv. þm. Pétur Blöndal flutti hér ágætisræðu með löngum lista yfir hvað þarf að skoða þegar menn fara að velta fyrir sér hvað olli hruni bankanna. Hann sleppti þó nokkrum atriðum sem mig langar til að bæta við. Hann nálgaðist þetta með bankana með þeim hætti að hann sagði að Íbúðalánasjóður hefði komið inn með því að lána sparisjóðunum fé, hann gleymir því að á sama tíma var ástæðan fyrir því að Íbúðalánasjóður fór að lána fé til bankanna einfaldlega sú að útlán hans urðu miklu minni, hann hafði afgangspening sem hann varð að ávaxta. Stóra málið var auðvitað að bankarnir komu inn á markaðinn með þeim hætti sem þeir gerðu, með 90% lán, buðu fólki það og góð kjör, hluti sem t.d. eru með ólíkindum ef maður hugsar til þess að bankarnir voru að fjármagna sig frá ári til árs en voru að lána til 40 ára. Það eitt, bara í fyrsta lagi einkavæðingin, hvernig staðið var að henni og síðan þetta með hvernig bankarnir komu inn á lánamarkaðinn er auðvitað mjög mikilvægt atriði í rannsókninni á þessu máli og Íbúðalánasjóður á að sjálfsögðu að koma inn í þá umræðu.

Það er ótrúlegt að horfa til þess að Íbúðalánasjóður er með lánasafn í dag upp á 600 milljarða kr. og ég veit ekki hvað Íbúðalánasjóður er búinn að starfa lengi, líklega um 40 ár, það eru heildarskuldirnar sem eru inni í Íbúðalánasjóði í dag. Á síðustu fjórum til fimm árum hafa bankarnir lánað sömu upphæð, þ.e. lánasafn bankanna, sparisjóðanna og þeirra sem komu inn á markaðinn er orðið jafnstórt og Íbúðalánasjóður. Það segir okkur náttúrlega hvílíkur hamagangur hefur verið á síðustu árum sem er ein af skýringunum fyrir hruninu.

Annað mál sem Pétur nefndi ekki en mér finnst vert að skoða kom fram í ræðu hjá prófessor Þorvaldi Gylfasyni og hafði svo sem komið inn í umræðuna löngu áður, það er þetta með hvaða áhrif t.d. kvótakerfið hafði á fjármagnsmarkaðinn. Við bjuggum allt í einu til peninga. Menn gátu selt sig út úr kerfinu fyrir mjög háar upphæðir, skildu skuldirnar eftir á sjávarútveginum en fóru í raunveruleikanum með peningana inn á peningamarkaðina, inn í fjárfestingar hér og þar. Þetta þótti mönnum gott til þess að örva efnahagslífið en þegar maður lítur til baka geta menn kannski séð að þetta er einn af bölvöldunum í þessu ferli öllu saman sem bjó til froðupeninga í kerfinu. Ég tel ástæðu til þess að menn skoði þetta.

Auðvitað gerist það líka vegna þess að það er svo mikið lánsfjárframboð í heiminum, t.d. gátu þeir sem seldu bjórverksmiðju í Rússlandi og komu inn með 40 milljarða, með því að skila ekki nema u.þ.b. 10% inn í eigið fé viðkomandi fyrirtækja, verið að fjárfesta kannski upp í 300–400 milljarða fyrir þessa upphæð, enda urðu þeir mjög stórtækir hér á innanlandsmarkaðnum. Þetta eru allt saman veikleikar í þessu kerfi sem þarf að skoða og þarf að fjalla um í svona rannsókn þó að ég vilji taka undir það sem hér hefur komið fram að það er ekki þannig að við finnum einhvern stórasannleik en við finnum örugglega röð af hugsanlegum skýringum sem verður að taka til frekari skoðunar og umræðu í framhaldinu.

Ég fagna því að þessi rannsóknarnefnd sé komin hér á blað og vona að allsherjarnefnd fjalli fljótt og vel um málið, lagi það eftir þörfum og komi því sem fyrst inn í þingið þannig að viðkomandi nefnd verði skipuð og geti hafið störf sem fyrst, því fyrr því betra.