136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[15:37]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nú kosið vegna skamms fyrirvara að tjá mig ekki um þetta mál en áskil mér auðvitað rétt til þess við 2. umr. Það eru þó atriði sem ég vil varpa fram til hv. þm. Sturlu Böðvarssonar. Það eru atriði sem komið hafa hér fram í dag og allsherjarnefnd þyrfti að fá svör við sem nesti í umræðuna. Það er þetta orðalag „að leita sannleikans“, hvort megi breyta því í „að leita staðreynda“. Það er kallað „fact finding missions“ hjá mannréttindadómstólnum.

Í öðru lagi kom hv. þm. Árni Páll Árnason með tillögur um að skeyta 3. mgr. við sem 7. lið við 1. gr. Hér var líka rætt um hugsanlega rannsókn á fjármagnsflutningum og afstaða hv. þingmanns, 1. flutningsmanns, til þess held ég að þurfi að liggja fyrir. (Gripið fram í.) Og kannski í beinu framhaldi af því — og það er það sem ég er hugsi yfir — er spurning um hvort nefndin eigi að vera þriggja manna. Ég sé það einhvern veginn fyrir mér að hún verði þriggja karla nefnd sem skoðar strákana þannig að ekki náist jafnræði kynjanna innan þessarar nefndar.

Með því að forsætisnefnd (Gripið fram í.) skipaði þrjá í staðinn fyrir tvo væru kannski tveir til viðbótar úr þessum hópi, heimspeki, sagnfræði, eða annarra manna með þá sérfræðiþekkingu sem kannar siðferðið að baki. Ég er á því að þetta eigi að vera ein skýrsla í heild sinni bæði um lagalegu atriðin og fleira og enn fremur siðferði í fjármálaheiminum. Ég vildi sem sagt gjarnan fá að heyra sjónarmið hv. 1. flutningsmanns frumvarpsins, Sturlu Böðvarssonar, á þessum þáttum málsins.