136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[15:41]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir svarið — ekki eigi að gera grundvallarbreytingar. Ég er ekki að kalla eftir því að frumvarpið fái einhverja grundvallarbreytingu en auðvitað þarf það að fá vandaða þinglega meðferð í nefndinni eins og önnur frumvörp.

Það verður að gæta jafnræðis við skipan þessarar þriggja manna nefndar, jafnræðis kynjanna og þeirra undirnefnda sem til koma. Fallist hv. þingmaður ekki á að breyta fjölda rannsóknarnefndarmanna úr þremur í fimm eins og ég spurði hann að, spyr ég hvort ekki megi gera niðurstöðu þriggja manna hóps siðfræðinefndarinnar að óaðskiljanlegum hluta af skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Talað er um að þessi siðfræðinefnd, ef ég má kalla hana það, rannsaki eða skoði þetta mál í samráði við rannsóknarnefndina. Ég hefði talið að sú skýrsla ætti að verða óaðskiljanlegur hluti af hinni endanlegu skýrslu og ég spyr hv. þm. Sturlu Böðvarsson að aðstöðu hans til þessa.