136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[15:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nauman tíma til að svara þeim spurningum sem hér komu fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni en ég skal reyna eins og ég get að ná því.

Í fyrsta lagi um lánsupphæðirnar þá eru heildarskuldbindingarnar í Bretlandi og Hollandi vegna þessara innlánstrygginga um 625 milljarðar ísl. kr. og heildarskuldbindingar vegna Kaupþings Edge í Þýskalandi eru um 40 milljarðar kr.

Það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun hjá fulltrúum skilanefndar Landsbankans að heildareignir Landsbankans væru á bilinu 800–1.200 milljarðar kr. og ef við gerum ráð fyrir að það séu um þúsund milljarðar sem Landsbankinn eigi þarna upp í þetta má gera ráð fyrir að það sem falli á ríkið vegna Icesave sé á bilinu 140–160 milljarðar kr. að þessum forsendum gefnum. Það er talið ólíklegt að nokkur skuldbinding falli á ríkissjóð vegna Kaupþings Edge í Þýskalandi vegna þess að talið er að þar geti Kaupþing staðið undir þeim kröfum úr búinu.

Miðað við þessar forsendur, að það séu um þúsund milljarðar sem komi út úr búi Landsbankans upp í þessar kröfur, geta þetta verið á bilinu 140–160 milljarðar. Um lán, kjör, vexti og afborganir er ekki hægt að segja neitt núna. Nú förum við og semjum um þessa hluti, hverjir eru vextirnir og kjörin og afborganirnar, og síðan verður það kynnt með viðeigandi hætti fyrir þinginu þegar niðurstaðan er komin úr því.

Hvað varðar að taka sérstakt tillit til Íslands vegna þeirra aðstæðna sem hér eru uppi þá geri ég ráð fyrir að það sé einmitt í þeim þáttum sem það endurspeglist, hvenær við byrjum að borga af láninu, hverjir verði vextirnir, hver verði kjörin, hvaða endurskoðunarákvæði verði í þessu og annað slíkt, að það sé það sem átt er við.