136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[15:54]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið fram í fréttatilkynningum að lánveitingar af hálfu þessara ríkja liggi fyrir og á hvaða kjörum þær séu, þess vegna spyr ég um það.

Í öðru lagi spyr ég: Er búið að aflétta hryðjuverkalögunum sem sett voru á Landsbankann, á eignir hans í Bretlandi, eða standa þau enn? Ef þau standa enn standa þau að sjálfsögðu með fulltingi allra Evrópusambandsríkjanna sem hafa fylgt eftir kröfum Breta.

Ég spyr einnig, frú forseti: Gert er ráð fyrir að eignir Landsbankans og Kaupþings í Þýskalandi renni upp í skuldbindingarnar. Jafnframt hefur komið fram að það geti tekið langan tíma að selja þessar eignir og menn tala þar um ár. Það sem komið gæti inn fyrir eignirnar getur því komið inn á löngum tíma. Skuldbindingin hins vegar gagnvart því að greiða út af þessum reikningum til þarlendra reikningshafa, er hún ekki nú þegar eða innan þess tíma þannig að Íslendingar gætu þurft að standa skil á þessum greiðslum annaðhvort í formi láns sem viðkomandi land veitir — þessar greiðslur verða jú að koma fram til hlutaðeigandi reikningshafa áður en söluverð hugsanlegra eigna kemur inn — og mun Ísland þá ekki bera raunverulega ábyrgð á allri þeirri upphæð sem tilgreind er?