136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:29]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ein höfuðmeinsemdin í meðferð á öllu þessu máli er leyndin. Allt er trúnaður. Alþingi á að samþykkja 640 milljarða kr. skuldbindingar við Breta en þegar spurt er um einhver grunnatriði sem það byggist á er það leyndarmál. Hvers konar framkoma er þetta gagnvart Alþingi og þjóð?

Þegar talað er um 45 milljarða skuldbindingar við Þjóðverja og Þjóðverjar senda þakkarbréf til Íslendinga fyrir það að hafa samþykkt að greiða þessa reikninga segir ráðherra að hann hafi ekki hugmynd um þessa skuld í Þýskalandi. Er þetta svo mikið trúnaðarmál að Þjóðverjar geta sent okkur þakkarbréf fyrir greiðslu á skuld sem er svo mikið trúnaðarmál að hana má ekki upplýsa? Hvernig var með bréfið, viljayfirlýsinguna eða samninginn sem hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen skrifaði undir í New York þegar ríkisstjórnin var upptekin við að reyna að koma sér inn í öryggisráðið? Hann þorði ekki annað en að skrifa í hvellinum undir svona pappíra. Af hverju kemur það bréf ekki fram? Skiptir engu máli fyrir þjóðina hvað fjármálaráðherra var að skrifa undir, í fullkomnu óleyfi reyndar, úti í New York upp á 150 milljarða eða hver nú skuldbindingin við Hollendinga var?

Svo kemur hv. þm. Árni Páll Árnason og segir við okkur þingmenn: Uss, uss, þetta er trúnaðarmál. Þið eigið bara að samþykkja heimild til ríkisstjórnarinnar um að greiða þessa 700–800 milljarða kr. Þið eigið ekki að vera að fárast fyrir því, nei, nei. Það er miklu betra fyrir ykkur að ræða um það af hverju við erum að skera niður fjárframlag til heilbrigðisstofnunar á Hvammstanga um 10 millj. Það skuluð þið ræða en ekki skuldbindingar upp á 600–800 milljarða kr. Það er trúnaðarmál.