136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:46]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst mjög athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. þingmanns þar sem hann sagði að hagsmunir ESB hefðu hugsanlega verið teknir fram yfir hagsmuni Íslendinga, hann lét í það skína. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort það sé kannski ástæðan fyrir því að viðkomandi ríki féllust ekki á gerðardóm í málinu, vegna þess að hagsmunirnir fyrir fjármálakerfi Evrópuríkjanna kölluðu á að ekki yrði leitað réttar í þessu máli. Það yrði ekki gengið til samninga, ekki gengið til sátta heldur samþykktu Íslendingar þessar kröfur til lausnar.

Ég vek líka athygli á orðum hv. þingmanns og spyr hvað hann eigi við þegar hann segir að hæstv. utanríkisráðherra hafi komið Íslandi aftur í tölu siðaðra þjóða í þessu sambandi. Vísar hann þá til orða hæstv. forsætisráðherra sem sagði að hann léti ekki Evrópusambandsríkin kúga sig? Aðspurður um hvað yrði þá með lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef aðilar eins og ríkið héldu fast við það að styðja ekki lánsafgreiðslu til Íslands fyrr en þetta hefði gengið fyrir sig sagði hæstv. forsætisráðherra eitthvað í þá veruna að við yrðum þá bara að leita annarra leiða.

Í lokin er þriðja spurningin um að nú hefur verið lögð áhersla á samstarf milli fjármálaeftirlitanna í Evrópusambandslöndunum, á Íslandi og í Bretlandi og Hollandi: Ber (Forseti hringir.) fjármálaeftirlitið í Hollandi, með vísan til orða hv. þingmanns eftir bankastjórunum þar, ekki ábyrgð á (Forseti hringir.) að hafa hleypt þessu í gang?