136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hræddur um að hv. þingmaður verði að spyrja einhvern annan stjórnmálamann en þann sem hér stendur hvers vegna hryðjuverkalögin standa enn, til að mynda breska forustumenn. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það var auðvitað fráleitt að beita þeim lögum gegn Íslandi.

Um það að þetta verður síðan á endanum allt saman, eins og hv. þingmaður segir réttilega, á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda held ég að undirstriki og staðfesti þá eindregnu sannfæringu mína að mikilvægt sé að yfir einum markaði séu aðrar stofnanir líka einar, þ.e. á einum markaði sé ein mynt og eitt myntkerfi, á einum markaði sé einn seðlabanki, eitt eftirlitskerfi, eitt þing yfir þeim markaði, eitt ráðherraráð yfir þeim markaði og þess vegna er sannfæring mín sú að okkur hefði farnast betur í þessum leiðangri öllum ef við hefðum tekið skrefið alla leið inn í Evrópusambandið og unnið á undanförnum árum að því að taka upp evru í landinu. Það veit ég að vegna þess að hv. þingmaður er framsýnn maður eigum við eftir að verða sammála um þetta atriði þótt síðar verði. (JBjarn: Og þú ætlar að gera það undir hryðjuverkalögum?)