136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við gátum ekki stöðvað þessa reikninga, við gátum það ekki. Kerfið gengur út frá því, það kerfi sem við byggðum upp og er fullkomlega í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins, með innlánstryggingasjóði, 0,15% greiðslu innlánsstofnana í þann sjóð upp að 1%. Slíkt kerfi virkar ekki nema það sé rólegt ástand, einn banki af hverjum 100 fari á hausinn á sjö ára fresti. En þegar allt bankakerfið fer virkar ekki kerfið.

Í staðinn fyrir að horfast í augu við og viðurkenna það koma þessir aðilar og kúga Íslendinga, skattgreiðendur á Íslandi. Það er stefnubreyting sem stjórnarskráin bannar, hún hreinlega bannar að veita fé úr ríkissjóði nema með fjárlögum. Þarna eru lög og reglur í Evrópusambandinu sem neyða — og svo eru samantekin ráð þessara svokölluðu vina okkar í Evrópusambandinu, meira að segja á Norðurlöndunum. Þeir eru að kúga Íslendinga með aðstoð frá IMF sem við bráðnauðsynlega þurfum á að halda vegna þess áfalls sem hrun bankakerfisins hefur valdið á Íslandi.

Herra forseti. Ég dáist að hv. þingmanni fyrir að hafa enn þá trú á því að ganga inn í Evrópusambandið.