136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:12]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason miklast hér mjög af milligöngu Evrópusambandsins og hjúpar aðkomu þess að málinu súkkulaðihjúp. Það er ekkert nýtt sem hann nefndi í sínu máli að Hollendingar og Bretar vildu ekki fallast á þær lögskýringar Íslendinga að við þyrftum ekki að gera annað en að standa undir þessum tryggingum með þessum sjóði og hann væri í fullkomnu samræmi við regluverk Evrópusambandsins. Hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra — það töluðu allir á þá leið að menn mundu ekki láta kúga sig.

Þegar Evrópusambandið kom að málinu gerðist eitthvað annað og hefur verið kallað eftir því hér í dag hvað það var í rauninni sem gerðist. Það er ekki þannig, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason vill vera láta, að Evrópusambandið hafi komið til þess að liðka fyrir þessum málum, þvert á móti. Aðkoma Evrópusambandsins hleypti málinu endanlega í hnút og það hefur hæstv. forsætisráðherra upplýst, sem og hæstv. utanríkisráðherra sjálfur hér áðan, að menn hafi verið komnir út í horn í algjöra einangrun vegna hvers? Vegna þess að Hollendingar og Bretar höfðu einhverjar skoðanir? Nei, vegna þess að 27 ríki Evrópusambandsins snerust gegn hagsmunum Íslendinga.

Að koma svo hér eins og hv. þingmaður gerir og þakka Evrópusambandinu kærlega fyrir aðkomuna heitir nú bara á íslensku að kyssa á vöndinn.