136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stoðar lítið fyrir hv. þingmann að koma hingað með einhvern mikinn reiðilestur og þylja upp úr viðtölum við hæstv. forsætisráðherra (Gripið fram í: Kúgun.) og hæstv. þáverandi starfandi utanríkisráðherra um þetta mál í miðju samningaferli. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. iðnaðarráðherra hafi lýst niðurstöðu samninganna sem kúgun. Það er einmitt það sem við erum að ræða um hér. Það er niðurstaða samninganna. (Gripið fram í.) Niðurstaða samninganna er sú að tekið er fyllsta tillit til sérstöðu Íslands og ég held að bæði hæstv. forsætisráðherra, sem stendur að þessari niðurstöðu, og hæstv. iðnaðarráðherra, sem gerir það líka, hafi fullan skilning á því að þetta sé fullkomlega ásættanleg niðurstaða. Ég hef ekki heyrt þá nota það orð, kúgun, um þessa niðurstöðu þannig að hv. þingmaður er með mikla útúrsnúninga og hártoganir.

Varðandi það sem hún spurði út í sem varðar þær kröfur sem Bretar hafa gert þá er það misskilningur í hennar orðum að ég hafi staðhæft nokkuð um það. Ég hef einfaldlega ekki þekkingu á því. Ég hef ekki upplýsingar um hver afstaða Breta er nákvæmlega (ÁI: ... Evrópusambandinu ...) En forsenda samninganna sem liggur fyrir er sú að verið er að ganga til samninga á forsendum innstæðutrygginganna, ekki ríkari ábyrgða en það. Alla vega legg ég þann skilning í málið. En ég hef engar frekari upplýsingar um það og er rétt að hæstv. utanríkisráðherra upplýsi um hvernig það mál er vaxið.