136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fer hv. þingmaður með margar staðhæfingar sem flestar eiga ekki við rök að styðjast. Ég held til dæmis að hv. þingmaður geti ekki fært nokkur sannfærandi rök fyrir því að viðsemjendur okkar hafi óttast að tapa þessu máli og ég verð að segja að ég hef ekki séð ein einustu skynsamleg rök fyrir því af hverju þeir hefðu átt að óttast það því ég hef engan fræðimann séð taka undir þær athugasemdir sem við settum fram og ég hef enga fræðigrein séð um það. Ég held að það sé leitun á Evrópuréttarlögfræðingi annars staðar en mönnum hér á Íslandi sem eðlilega eru að reyna að finna rök fyrir okkur til að standa í ístaðinu, sem styðja þennan málstað.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir hér að Bretar og Hollendingar hefðu átt að koma að lausn og axla þetta með okkur. Það er nákvæmlega það sem niðurstaðan úr samningunum hljóðar upp á. Evrópusambandið hefur þvingað Breta og Hollendinga til að koma að málinu með okkur. Með öðrum orðum, niðurstaðan er þannig að við tökum bakábyrgð á verkefninu en Evrópusambandsríkin koma að málinu og munu taka tillit til sérstakra íslenskra aðstæðna vegna þess að þær eru algerlega ófyrirséðar og langt utan við það sem búast mátti við.

Hv. þingmaður getur ekki talað af slíkri einangrunarhyggju að reyna núna að kenna öðrum ríkjum alfarið um ábyrgð á starfsemi útibúa íslenskra banka í öðrum löndum. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að eftirlitsskyldan er hjá Fjármálaeftirliti Íslands á útibúum íslenskra banka erlendis. Þess vegna og á þeim grunni hefur Fjármálaeftirlitið sótt auknar fjárheimildir á undanförnum árum til eftirlits og til að geta rækt eftirlitshlutverk sitt í þessum útibúum. Það hafa verið menn á ferðinni af hálfu Fjármálaeftirlitsins til að fylgjast með starfsemi þessara útibúa. Hv. þingmaður þumbaðist hins vegar lengi við árum saman gegn hækkuðum framlögum til Fjármálaeftirlitsins. (Gripið fram í.) Það er mikilvægt að hafa þetta allt í huga.