136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég tel mjög mikilvægt að þetta mál komi inn í þingið og hefði mátt gera það fyrr. Það hefur nefnilega skotið skökku við að hlusta á talsmenn ríkisstjórnarinnar segja í öðru orðinu að það eigi að velta við öllum steinum, allt eigi að vera uppi á borðum og ekki eigi að vera leynd yfir neinu en síðan afgreiða þeir skuldbindandi samninga langt inn í framtíðina á bak við þing og þjóð. Þeir neita að upplýsa þingið og þingnefndir og neita að koma með mál hingað inn.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa meira að segja haldið því fram um tíma að lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þyrfti ekki að koma hingað inn vegna þess að við hefðum síðastliðið vor afgreitt heimild ríkissjóðs til að afla lánsfjár í því skyni að styrkja gjaldeyrissjóðinn.

Ég legg sem sagt áherslu á að það er mikilvægt að þetta mál sé loksins komið til þings þótt seint sé. Mikilvægt er að það fari inn í nefnd og að þar verði allt uppi á borðum, öll skjöl og allar fundargerðir sem hér hefur verið minnst á. Ég óska sérstaklega eftir því að þau umsömdu viðmið sem eru fylgiskjal með þessari þingsályktunartillögu verði lögð undirrituð fyrir hv. utanríkismálanefnd á því tungumáli sem þau voru undirrituð vegna þess að það er ekki nægilega gott að hafa þessa þýðingu eins og hún er, ódagsett og óundirrituð. Það þarf að vera skýrara hvað hér er á ferðinni ef þetta á að vera fylgiskjal en ekki lýsing á fylgiskjali.

Það er ótrúlegt, herra forseti, að inn á borð þingsins skuli vera komið skjal frá ríkisstjórn Íslands um Icesave-málið án þess að minnst sé einu orði í greinargerð á hryðjuverkalögin sem Bretar beittu Íslendinga til þess að kyrrsetja eigur Landsbankans í Bretlandi og urðu reyndar til þess, ef ég hef skilið rétt, að eignir Kaupþings í Bretlandi voru kyrrsettar líka. Það er ótrúlegt að menn skuli hafa þegið, tekið og borgað fyrir þennan aðgöngumiða, sem samkomulagið um Icesave er, að prógramminu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum án þess að knýja á um afléttingu hryðjuverkalaganna fyrir fram. Ég tel það algjörlega óásættanlegt. Ég tel útilokað að Alþingi Íslendinga gangi frá samþykkt eða afgreiðslu þessarar tillögu sem hér liggur fyrir fyrr en Bretar hafa aflétt hryðjuverkalögunum sem þeir beittu Íslendinga í þessum efnum.

Mikið hefur verið rætt um það, sem eðlilegt er, hvernig íslenskir ráðamenn kúventu allt í einu í þessum málum þvert ofan í yfirlýsingar um að menn ætluðu ekki að láta kúga sig og ekki blanda saman tveimur óskyldum hlutum, aðgangi að lánafyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum annars vegar og uppgjöri á Icesave-reikningum á grunni Evróputilskipana hins vegar. Þá gerðist eitthvað sem varð til þess að ríkisstjórnin kúventi algjörlega og féll frá þeim fullveldisrétti sem ég tel að Ísland hafi til þess að leita úrræða niðurstöðu dómstóla.

Ég kallaði það áðan „að kyssa á vöndinn“ þegar hv. þm. Árni Páll Árnason lauk miklu lofsorði á aðkomu Evrópusambandsins að þessu máli. Auðvitað er hægt að hafa mörg orð um þá hnjáliðamýkt sem hefur komið fram í þessu máli gagnvart Evrópusambandinu sérstaklega og maður hlýtur að spyrja sig: Hvað gerðist? Í greinargerðinni segir á blaðsíðu 2, í kaflanum um pólitíska stöðu, að ekki hefði verið vart annars en stuðnings við málaleitan Íslendinga. Síðan segir með leyfi forseta:

„Það snerist hins vegar.“

Ég vil spyrja: Hvað gerðist nákvæmlega? Hverju var hótað? Í umræðum um þingsályktunartillögu sem tengd er Alþjóðagjaldeyrissjóðnum man ég ekki betur en hæstv. utanríkisráðherra hafi sagt að því hafi jafnvel verið hótað að Evrópusambandið setti Ísland út af sakramentinu og átti þá við EES-samninginn. Ég held að það sé mikilvægt að frá svör við því.

Nokkrar aðrar spurningar hafa verið nefndar sem mikilvægt er að fá svör við. Ég legg mikla áherslu á að það verði upplýst hvað stóð í plagginu sem hæstv. fjármálaráðherra skrifaði undir gagnvart Hollendingum. Ég vil minna á að 16. október sl. kom fram í Morgunblaðinu að gengið hefði verið frá samkomulagi sem gekk út á að Hollendingar lánuðu Íslendingum 1,1 milljarð evra til þess að gera upp Icesave-reikningana þar. Sambærilegt samkomulag hefði verið gert við Breta sem ekki væri búið að skrifa undir en það hljóðaði upp á 3 milljarða evra. Ég tel mjög mikilvægt að þetta plagg komi fram vegna þess að ef þarna hefur verið gengið frá samningum um lán hefur væntanlega líka verið gengið frá samningum um skilmála þessa láns.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, ef hún gæti gert svo vel og verið í salnum —

(Forseti (KHG): Ráðherrann er hér í húsinu.)

Já. Ráðherrann er hér, það er nefnilega það. Mig langar til að varpa fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Nú geri ég tilraun til þess í fjórða sinn. Hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, má ég eiga orðastað við ráðherrann á meðan ég stend í ræðustóli og klukkan tifar?

Ég vil spyrja um þær fjárhæðir sem ráðherrann nefndi áðan í andsvari um andvirði eigna Landsbanka Íslands, að þær gætu verið í kringum 1.000 milljarða kr. Átti hæstv. ráðherra við eignir í Bretlandi eða heildareignir Landsbanka Íslands?

Á hvaða gengi eru þessar fjárhæðir, 620 eða 615 milljarðar íslenskra króna? Á gengi dagsins í dag eru þær fjárhæðir sem Morgunblaðið skýrir frá og samið hefur verið um gott betur. Þær eru nær 800 milljarðar íslenskra króna. (Gripið fram í.)

Mig langar til að spyrja ráðherrann um það sem hv. þm. Árni Páll Árnason lét liggja að hér áðan að fyrir milligöngu Evrópusambandsins hefðu Bretar fallið frá því að gera ítarlegri kröfur til greiðslu af hendi Íslendinga en lágmarkstryggingin gerir ráð fyrir. Hafa Bretar fallið algjörlega frá þeim kröfum? Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra telji einhverja tengingu milli þess að Bretar aflétta ekki enn þá kyrrsetningu á eignum Landsbankans og þess að bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau muni ábyrgjast það sem umfram er. Telur hæstv. ráðherra einhvern minnsta möguleika á því að bresk stjórnvöld hugsi sér að nýta kyrrsettar eignir Landsbanka Íslands til þess að greiða það sem umfram er af lágmarksinnstæðutryggingunni en láta Íslendingum eftir að borga rest? Þetta tel ég að sé mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði áðan.

Herra forseti. Ræðutími minn er búinn og ég óska eftir því að komast aftur á mælendaskrá.