136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var auðvitað rætt í nefndinni en það er augljóst að svona sjálfstæð tillaga sem breytingartillaga og bráðabirgðaákvæði við það frumvarp sem fjölluðum um í nefndinni þarf auðvitað mun meiri athugunar við og auðvitað getur hv. þm. Atli Gíslason lagt tillöguna fram á Alþingi til að hún fái þar afgreiðslu. Hitt er annað mál að það er þó nokkuð síðan að þetta frumvarp var lagt fram og það var fyrst í gær sem þessi tillaga hv. þm. Atla Gíslasonar kom fram og það hafði áður verið boðið upp á það, bæði þegar málið var kynnt og fyrr, að menn kölluðu til alla þá sem menn hugsanlega vildu fá til að ræða þetta mál við nefndina. Ég hvet hv. þingmann til að flytja svona tillögu eins og hann er með sem breytingartillögu við 3. umr. sem sjálfstætt mál.

Hins vegar ræddum við það í nefndinni að við mundum fylgjast mjög vel með því hvernig þetta mál gengur fram, hvernig mönnum tekst að smíða reglugerð, hvernig hagsmunaaðilum tekst að koma sér upp því kerfi sem til þarf, því að þarna þurfa auðvitað að koma að útflytjendur, fiskverkendur og fiskmarkaðirnir, reiknistofa fiskmarkaða, til að þetta kerfi geti í raun virkað. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að við ljúkum þessu máli núna þannig að þessir aðilar geti farið að starfa með formlegum hætti (Forseti hringir.) þann 1. febrúar þegar lögin taka gildi.