136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

Niðurfelling skulda sjávarútvegsfyrirtækja.

[10:39]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það komu fréttir um það að skilanefnd Landsbankans, Nýi Landsbankinn og 33 fyrirtæki í sjávarútvegi eigi í samningaviðræðum um uppgjör skulda sjávarútvegsfyrirtækjanna vegna framvirkra gjaldmiðilssamninga. Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 11. desember ræddi Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útgerðarmanna, um samningaumleitanir 33 sjávarútvegsfyrirtækja við Landsbanka Íslands og skilanefnd um niðurfellingu hluta skulda umræddra fyrirtækja. Það mátti heyra að samningar væru að takast og eitt fyrirtækjanna fengi meira að segja stærstan hluta skuldanna felldan niður.

Nú háttar svo til að Nýi Landsbankinn er í ríkiseigu þannig að um aðkomu ríkisvaldsins er að ræða að hugsanlegri niðurfellingu skulda þó nokkurra, jafnvel fjölmargra, fyrirtækja í sjávarútvegi og hugsanlegum framvirkum samningum þar sem svo virðist vera sem veðsetja eigi óveiddan afla. Hvað sem því líður er eðlilegt að spurt sé: Með hvaða hætti kemur ríkisstjórn Íslands, sjávarútvegsráðuneytið, að þessum samningum? Er verið að fella niður að hluta eða að verulegu leyti skuldir einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi? Er verið að veðsetja aflaheimildir til framtíðar? Með hvaða hætti er um þessar uppgjörsskuldir sjávarútvegsfyrirtækja að ræða? Þetta er einkar mikilvægt fyrir Alþingi Íslendinga að vita, ekki síst vegna þess að við frjálslyndir höfum lagt til ákveðna hugmynd um að veiðiheimildir verði innkallaðar þannig að allar veiðiheimildir séu í raun í eigu hins opinbera.