136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:35]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að hér sé rætt um efnahagsmál á víðum grundvelli í því ljósi sem staða þeirra er um þessar mundir. Ég vil segja að ríkisstjórnarskiptin töfðu mjög framgang mála hér á Alþingi, það voru ekki haldnir þingfundir á aðra viku vegna þess að menn voru að reyna að koma sér saman um málefnasáttmála ríkisstjórnar með stuðningi flokks sem ekki vildi vera aðili að ríkisstjórninni. Og svo eftir margra daga fundahöld þegar afraksturinn var loksins sýndur var ekkert á blaðinu, engar ákvarðanir lágu fyrir heldur aðeins „skoða og athuga“. Þar fóru þingmenn illa með tímann og á því bera þeir ábyrgð sem hleyptu málunum í þá stöðu að eyða mörgum dögum í karp um einhverja hluti sem engu skilaði þegar upp var staðið.

Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. málshefjanda, hv. 1. þm. Reykv.s., að það er mikilvægast að koma bankakerfinu í gang. Menn hljóta eðlilega að beina öllum kröftum sínum að því til þess að koma þeirri starfsemi af stað og til þess að geta fjármagnað atvinnulífið því að atvinnuleysi er það mesta böl sem Íslendingar sjá framan í um þessar mundir og menn verða að leggja sig fram um að koma í veg fyrir að það verði eins mikið og útlit er fyrir og spáð er. Bankakerfið er grundvöllurinn til þess að ná árangri á því sviði.

Í öðru lagi þurfa menn að ná árangri í aðgerðum til þess að hjálpa skuldsettum heimilum að ná tökum á skuldum sínum í ljósi þess sem hefur orðið frá því að bankarnir féllu, bæði að kaupmáttur fólks hefur minnkað og verðbólga aukist sem hefur leitt til þess að greiðslugetan er ekki lengur í því samræmi sem ætlað var fyrir fall bankanna. Það er því augljóst að margar fjölskyldur þurfa að fá stuðning og aðstoð til að komast út úr skuldum sínum á þann hátt sem ætlað var í upphafi. Það er ákaflega mikilvægt að þingið afgreiði löggjöf um þetta og það eru komin fram frumvörp frá ríkisstjórninni. Það er fagnaðarefni og ég bendi á tvö frumvörp sem ég hef flutt um það efni sem ég held að leggi góðar hugmyndir inn í þær aðgerðir sem þarf að fara í, annars vegar um tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga og hins vegar um breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem opnað er fyrir þann möguleika að atvinnulausir geti stundað nám til að auka starfshæfni sína og verið í allt að tvö ár í námi. Það mun hjálpa verulega til við að draga úr atvinnuleysi en ekki hvað síst til að skapa vinnuafl sem getur tekist á við ný störf sem munu auðvitað verða til eftir þessar breytingar.

Í þriðja lagi þurfa stjórnvöld að nota tímann til þess að ráðast í atvinnuuppbyggingu og þar hefur ríkisstjórnin ekki lagt mikið að mörkum annað en að setja fótinn fyrir ný atvinnutækifæri í hvalveiðum, að standa á bremsunni í stóriðjuuppbyggingu, hvort sem það er álver eða eitthvað annað, og það verður ekki séð að ríkisstjórnin hafi náð saman um stefnu til þess að skapa ný atvinnutækifæri á Íslandi með því að nýta auðlindir landsins eða sjávarins, virðulegi forseti. Það er miður að ríkisstjórnin skuli vera svona ósamstæð í þessum efnum og þeir sem styðja hana til valda bera ábyrgð á því. Þeir munu þurfa að svara fyrir þá ábyrgð þegar þar að kemur að dregst úr hömlu (Forseti hringir.) að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir í atvinnulífinu.