136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[16:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Öðruvísi mér áður brá um þetta mál. Hér sitja þó einir þrír þingmenn, auk forseta og þess sem hér stendur í stólnum, og ræða málið. Það er ekki mikil stemning í salnum. Fyrir utan eru einn og einn maður og nokkrir fuglar á stangli og það er nú það sem er eftir af þessu mikla máli, eftirlaunamálinu, sem keyrt var áfram í tíð — reyndar ekki fyrrverandi stjórnar heldur ríkisstjórnarinnar sem sat þar áður af þvílíku offorsi og látum að það var eins og himinn og jörð væru að farast. Þetta var eitthvert allra brýnasta málið sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Framsóknarflokkinn innan borðs rak þá. Endirinn á því er sá að nú er 2. umr. um málið og átta af níu nefndarmönnum í allsherjarnefnd hafa skrifað undir nefndarálit þar sem lagt er til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Að vísu er einn hv. þingmaður með minni háttar breytingartillögur. Sá eini sem eftir er var fjarverandi og sá tíundi sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og var sammála nefndinni allri um þetta.

Ég stend upp til þess að gleðjast yfir því að menn hafi fengið vitið, séð ljósið í þessu efni. Meira að segja hefur hv. þm. Pétur Blöndal séð ljósið með sínum hætti og aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Mér sýnist reyndar að þeir hafi ekki verið viðstaddir þegar málið var afgreitt á fyrra kjörtímabili, þetta erfiða mál — líka fyrir þann sem klappaði mér svo yndislega á vinstri hönd, (Utanrrh.: En sá stendur allt af sér.) en sá stendur allt af sér eins og hinn mikli brimbrjótur. Hvernig var þetta í Áföngum? (Utanrrh.: Öldubrjóturinn kargi.) Öldubrjóturinn kargi, já. Hinn kargi öldubrjótur okkar alþingismanna sem allt stendur af sér, jafnvel þá ágjöf sem hann varð fyrir í þessu máli og tapaði þó formennskunni í heilum stjórnmálaflokki fyrir vikið, en það er að minnsta kosti söguskýring mín og pólitískra sagnfræðinga.

Það voru á sínum tíma mikil mistök að vera bendlaður við þetta mál eins og þeir voru og hafa nú beðist afsökunar á, þeir Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson. Við áttum þá afsökunarbeiðni fullkomlega skilið þó að meginábyrgðin á málinu, á þeim vanda sem það hefur valdið, því virðingarleysi sem það hefur kostað Alþingi og þeim trúnaðarbresti sem það kom af stað á sínum tíma — að minnsta kosti dýpkaði gjáin milli þings og þjóðar — bera auðvitað þeir menn sem báru það fram. Það voru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, þó að millimenn stæðu einnig að frumvarpinu, og þeir flokkar sem á bak við þá stóðu. Því hlýtur maður að fagna því að þeir hafa snúið við blaðinu og meira að segja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru á þessu nefndaráliti, að vísu með fyrirvara.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert góða grein fyrir fyrirvara sínum en það hafa þau Ragnheiður Elín Árnadóttir og Ármann Kr. Ólafsson því miður ekki gert. En við lítum svo á að það hljóti að vera minni háttar fyrirvarar með sama hætti og hjá Pétri Blöndal.

Ég vil svo segja um það sem Pétur Blöndal minntist á að margt af því má læra. Það er í fyrsta lagi alveg rétt hjá honum að þó að málið sé hér með afgreitt — og ég hygg að lífeyrismálum ráðherra og alþingismanna, fyrst og fremst ráðherra, verði ekki breytt. Við skulum hafa það algjörlega á tæru að spurningin var á sínum tíma um forréttindi ráðherra miklu frekar en alþingismanna. Þó er það þannig að alþingismenn verða stundum ráðherrar. En ég hygg að þessu verði ekki breytt.

Hins vegar á eftir að fara í gegnum ýmislegt á þinginu. Þar á meðal eru, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði réttilega, þessir dagpeningar. Mér hefur alltaf fundist það skrýtið að menn skuli ekki fást til þess að ræða dagpeninga þingmanna, og reyndar embættismanna, ráðherra og eiginkvenna og eiginmanna ráðherra og hvernig það er nú allt saman. Þessar dagpeningagreiðslur eru algjör della, óháð því hvert menn fara eða að minnsta kosti með hvaða hætti menn fara, hvort þeir fá hótelið greitt af sjálfu sér eða ekki og hvort þeir þurfa að greiða nokkurt fé út. Niðurstaðan með dagpeningana er sú að menn líta á þá sem sérstakan bónus. Menn líta á þá nánast sem kaupauka á þinginu og í stjórnkerfinu. Þeir sem oftast fara fá mest út úr þessu og síðan eru spunnar upp einhverjar afsakanir um að það geti komið fyrir í tíunda hvert skipti að borga þurfi leigubíl eða eitthvað álíka. Dagpeningamálin eru þinginu og stjórnkerfinu ekki til sóma og ég vona að þegar þessi ríkisstjórn kemur saman aftur að loknum næstu kosningum verði þetta eitt af því sem hún tekur til athugunar og ráðstöfunar. Ég vænti góðs skilnings næstkomandi stjórnarandstöðu — sem er sú sama og núna — á þessu máli þegar það kemur hér fyrir.

Sama máli gegnir með vildarpunkta og þar minni ég á ræður og fyrirspurnir Jóhanns Ársælssonar, fyrrverandi þingmanns, einhvers besta þingmanns í seinni tíð að mínu áliti, sem spurði oft um vildarpunktana. Hann spurði fjármálaráðherra um þá og þeir svöruðu því alltaf að þetta væri ekki hægt og þetta væri í samningum flugfélagsins, þessa eina, hálfgert opinbera ríkisflugfélags hér, hver sem á það nú í hvert skipti. Menn vildu aldrei gera neitt í því vegna þess að það er alveg eins og með vildarpunktana: Litið er á þá sem kaupauka bæði í þinginu og í stjórnkerfinu. Þeir sem oftast þurfa að fara til útlanda fá mest af þeim. Þeir taka fjölskylduna með í einhver sumarfrí eða notfæra sér þá sem einhvers konar bónus sem enginn hefur samið við þá um. Ef ríkið á að fá einhvern afslátt eða plús, einhverja greiða fyrir hin miklu viðskipti sem það stendur í við það flugfélag sem skipt er við, á auðvitað ríkið sjálft, fjárhirsla almennings, að njóta þess en ekki þeir embættismenn eða þingmenn eða hverjir sem það nú eru sem út eru sendir. Það er auðvitað algjör della og það er líka algjörlega óskiljanlegt að þetta skuli nánast aldrei fást rætt vegna þess að það er hluti af einhverjum viðkvæmum kjörum. Ég vona að næsta ríkisstjórn, sem er vonandi sú sama og þessi eftir kosningar, taki þetta mál líka fyrir og hreinsi til í þessu efni. Ég gæti líka haldið fyrirlestur um starfskostnað en það er annars konar mál en það fyrra sem nefnt var.

Ég vil líka vera svo djarfur að taka undir með Pétri Blöndal um lífeyrissjóðina. Það er eitt af því sem þarf að gerast. Það getur ekki gerst á þessum 80 dögum sem nú eru að líða en það þarf að gerast á næsta kjörtímabili og eins fljótt og unnt er. Það þarf að fara í gegnum það hóflega og varlega en með festu hvernig við ætlum að hafa lífeyrissjóðakerfið í framtíðinni og hvernig við ætlum að fara að með yfirstjórn þess. Ekki eingöngu vegna þess sem Pétur Blöndal rakti að í stjórnum þeirra sitja menn sem enginn hefur kjörið þó að lagalega sé hægt með krókaleiðum að hafa það öðruvísi. Ekki eingöngu vegna þess að þessir menn njóta mikilla fríðinda án þess að nokkur umbjóðenda þeirra hafi samþykkt að þeir njóti þessara fríðinda heldur líka vegna þess að saga síðustu ára bendir ekki til þess að þessar stjórnir hafi í fyrsta lagi farið vel með fé umbjóðenda sinna og í öðru lagi að þeir hafi rekið lífeyrissjóðina með hag almennings fyrir augum. Þeir hafa aftur á móti hneigst til — þannig að ég orði þetta eins kurteislega og ég get — að taka þátt í því kapphlaupi sem hér var uppi um sem allra mesta ávöxtun, um sem allra mestan gróða og um sem allra mest umsvif, hvað sem þau kostuðu. Hér ætla ég að hætta en þetta er umræða sem við þurfum fyrr eða síðar taka, hversu viðkvæm sem okkur kann að finnast hún. Mér finnst hún viðkvæm vegna þess að ég er einlægur stuðningsmaður verkalýðshreyfingarinnar sem á helminginn af fulltrúunum í þessum lífeyrissjóðum. En sá er vinur sem til vamms segir.

Ég vil svo segja að lokum að mér þykir breytingartillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals mjög athyglisverð og tel að við eigum að skoða hana. En ég minni á að þetta er eiginlega sú breytingartillaga sem við gerðum, ég og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, við 1. umr. málsins en þó aðeins munnlega. Hún var aðeins öðruvísi og hljóðaði sem sagt þannig, eftir að þingmaðurinn er búinn að færa hana í betra form, að mönnum sé heimilt að greiða í lífeyrissjóð að eigin vali, enda fari starfsemin eftir lögum og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Ég spyr flutningsmann hvort hann geti ekki sætt sig við að orðalagið verði þannig að í staðinn fyrir að ráðherrum og alþingismönnum sé heimilt að gera þetta, standi hér:

„Pétri H. Blöndal er heimilt að greiða í lífeyrissjóð að eigin vali enda fari starfsemin eftir lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.“

Forseti. Ég held að það væri við hæfi eftir mikla baráttu Péturs Blöndals — sem vonandi verður hér næstu fjögur árin a.m.k., því að Pétur H. Blöndal er mikil prýði á Alþingi — að hann fengi þessa sérstöku undanþágu um að greiða lífeyrisgjald sitt í hvaða lífeyrissjóð sem hann vill. Mér skildist í 1. umr. að hann væri helst á því að greiða fé sitt í Lífeyrissjóð bænda enda væri það vel við hæfi því að þar fer saman hagsýni og framsýni eins og hjá hv. þingmanni.